VBS fjárfestingarbanki hefur haft samband við skilanefnd SPRON og lýst yfir áhuga á því að kaupa Netbankann nb.is, dótturfélag SPRON.
„Við höfum óskað eftir því að hefja viðræður um kaup á Netbankanum,“ segir Jón Þórisson,“ forstjóri VBS. Hann segir að fáir aðrir en fjármálafyrirtæki geti tekist á hendur verkefni af þessu tagi. Hann segir að Netbankinn falli vel að stefnu VBS fjárfestingarbanka og framtíðarsýn. „Netbankinn hefur öll tilskilin leyfi til að taka við innlánum og þjónusta viðskiptavini í gegnum netið. Það er þrautreyndur netbankabúnaður til staðar og ferlar og kerfi sem eru tiltölulega aðgengileg. Það er einfaldara fyrir þann sem hefur áhuga á því að fara út í þessa starfsemi að fjárfesta í fyrirtæki sem er þegar í starfsemi í stað þess að byggja upp,“ segir Jón. Að sögn Jóns hafa engar verðhugmyndir verið nefndar á þessu stigi málsins.
Skilanefnd SPRON sendi frá sér tilkynningu í morgun um að þeir sem hefðu áhuga á verðmætum í eigu SPRON gætu haft samband við skilanefndina í gegnum netfangið skilanefnd@spron.is Voru áhugasamir beðnir um að setja sig í samband við skilanefndina fyrir klukkan tólf á hádegi á morgun, þriðjudaginn 24. mars.
Eins og Morgunblaðið greindi frá í dag þá hefur MP banki lýst yfir áhuga á því að taka yfir hluta af starfsemi SPRON. Margeir Pétursson, stjórnarformaður MP banka, segir SPRON njóta mikillar viðskiptavildar og þar sé gott starfsfólk. Hægt verði að bjarga einhverjum störfum ef þetta gangi eftir, að sögn Margeirs.
Á þriðja hundrað starfsmanna missir vinnuna í kjölfar yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á SPRON og Sparisjóðabankanum. Ekki liggur fyrir hversu margir starfsmenn fá vinnu hjá Nýja Kaupþingi, en einhverjir starfsmenn SPRON verða ráðnir yfir.