Nýja Kaupþing hefur ákveðið að hætta töku sjálfskuldarábyrgða eða fasteignaveða þriðja aðila vegna lána til einstaklinga. Einstaklingar fá því framvegis fyrirgreiðslu eingöngu í takt við eigin greiðslugetu og efnahag. Samkvæmt tilkynningu er Kaupþing fyrstur banka til að bjóða þetta.
Í tilkynningu frá bankanum segir að starfsfólk og stjórn Nýja Kaupþings hafi undanfarnar vikur unnið að stefnumörkun sem m.a. miði að því að auðvelda einstaklingum að takast á við fjármálakreppuna og jafnframt að koma í veg fyrir að fólk verði fyrir sambærilegum skakkaföllum á ný. Markmiðið sé að endurvinna traust á fjármálakerfinu og sníða þjónustu þess að breyttum þörfum fyrirtækja og heimila.
„Þessi breyting, að hætta töku sjálfskuldarábyrgða og fasteignaveða þriðja aðila, er hluti af þeirri stefnumörkun. Með þessari breytingu miðast lán einstaklinga eingöngu við þeirra eigin greiðslugetu og efnahag. Þá lágmarkar þetta hættu á að fjárhagserfiðleikar einstaklinga smiti út frá sér í nærsamfélag þeirra. Reynsla bankans af ábyrgðum þriðja aðila, hefur ekki verið góð, innheimta þeirra hefur gengið treglega og skapað bankanum óþarfa óvild. Því er afnám ábyrgða þriðja aðila rökrétt skref í því uppbyggingastarfi sem nú á sér stað,“ segir í tilkynningu.
Breytingin er ekki afturvirk gagnvart þeim lánum sem Nýja Kaupþing yfirtók frá Kaupþingi eða hefur veitt frá stofnun bankans í október.