Nokkuð miklar verðbreytingar hafa verið á skuldabréfamarkaðnum í dag í kjölfar þess að verðbólgutölur voru birtar í morgun. Hafa fjárfestar verið að selja verðtryggð skuldabréf og kaupa óverðtryggð bréf. Það gefur til kynna að þeir búast við lækkandi verðbólgu.
Nokkur velta hefur verið með skuldabréf í dag eða fyrir 9,2 milljarða króna. Óverðtryggð ríkisbréf með gjalddaga í febrúar 2019 höfðu hækkað mest klukkan þrjú í dag eða um 1,85%. Ríkisbréf með gjalddaga 2013 höfðu hækkað um 0,58% og styttri bréf hækkuðu minna.
Þar sem fjárfestar eru að selja verðtryggð bréf höfðu íbúðabréf, sem eru verðtryggð, með gjalddaga 2044 lækkað um 1,91%. Íbúðabréf með gjalddaga 2024 lækkuðu um 1,87% og styttri bréf lækkuðu minna.
Þetta gefur vísbendingar um að fjárfestar eru að kaupa óverðtryggð ríkisbréf en selja verðtryggð íbúðabréf. Það er í samræmi við spár manna um að verðbólga fari nú lækkandi.