SÍ: Stefnt í ógöngur

„Það er ljóst að íslensku bankarnir, Kaupþing og Glitnir alveg sérstaklega, hafa stefnt sér og það sem verra er, íslensku fjármálalífi, í mikla hættu, jafnvel hreinar ógöngur.“ Þetta er meðal þess sem segir í minnisblaði starfsmanna Seðlabanka Íslands eftir fundi þeirra með fulltrúum erlendra banka og matsfyrirtækja í London í febrúar 2008.

Og áfram segir í minnisblaðinu: „Hættulegt er að hafast ekkert að í þeirri von að markaðir opnist óvænt og allur vandi verði þá úr sögunni. Nauðsynlegt er að hefjast þegar handa við að vinda ofan af stöðunni svo hún verði ekki óleysanleg. Ekki er hægt að útiloka að miklu fyrr rætist úr markaðsaðstæðum og aðgengi að fjármagni en nú er talið. Ekkert bendir þó enn til þess og ef menn láta sér nægja að lifa í voninni verður of seint að bregðast við þegar ljóst verður að vonin rætist ekki.“

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, sagði í samtali við blaðamann í gær að honum hefði aldrei verið sýnt þetta minnisblað og það hefði ekki verið lagt fram í ríkisstjórn. „Að því er mér skilst var því aldrei dreift til annarra ráðherra. Aðrir verða að gera grein fyrir því hvernig þetta var kynnt fyrir þeim, einhverjir sem það þó sáu,“ sagði Björgvin.

Seðlabankamenn vörðu Icesave

Í minnisblaðinu segir eftir fund starfsmanna Seðlabankans með fulltrúum matsfyrirtækja, að ljóst sé að áhyggjur af Íslandi litist eingöngu af áhyggjum af íslensku bönkunum. Talið sé að fyrirferð þeirra í fjármálalífi Íslendinga sé slík að verði þeim hált á svelli þá detti aðrir með. Fulltrúar Moody's hafi haft áhyggjur af öllum bönkunum en þó einna mest af einum þætti sem snýr að Landsbanka Íslands vegna Icesave-innlánsreikninga bankans. „Seðlabankamenn fóru yfir þau rök sem væru gegn því að þessi innlánsreikningur væri jafn ótraustur og Moody's hefði áhyggjur af, en ekki er líklegt að öllum efasemdum þeirra hafi verið eytt,“ segir í minnisblaðinu.

Varðandi fundi með fulltrúum stórra erlendra banka segir meðal annars í minnisblaði starfsmanna Seðlabankans, „að íslenska bankakerfið væri í mikilli hættu, ekki síst vegna þess hvernig það hefur þanist út, skipulagslítið og ógætilega á undanförnum árum, í því trausti að lánsfjárútvegun yrði ætíð leikur einn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK