Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í mars 2009 lækkaði um 0,59% frá fyrra mánuði samkvæmt útreikningum Hagstofunnar. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,16% frá febrúar. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 15,2%. Í febrúar mældist ársverðbólgan 17,6% en náði hámarki í janúar er hún mældist 18,6%.
Greining Íslandsbanka gerði ráð fyrir að vísitalan myndi hækka um 0,3% frá fyrri mánuði. Spáir Greining Íslandsbanka því að verðbólgan verði komin niður í 4% í upphafi næsta árs.
Kostnaður vegna eigin húsnæðis lækkaði um 5,1%
Kostnaður vegna eigin húsnæðis lækkaði um 5,1% (vísitöluáhrif -0,76%). Þar af voru áhrif af lækkun markaðsverðs -0,72% og -0,04% af lækkun raunvaxta.
Verð á bensíni og díselolíu lækkaði um 3,1% (-0,13%) og verð á mat og drykkjarvöru um 0,9% (-0,12%). Þá lækkaði verð á flugfargjöldum til útlanda um 8,3% (-0,11%).
Vetrarútsölum er víðast lokið og hækkaði verð á fötum og skóm um 5,5% (0,26%).
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 15,2% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 19,4%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,5% sem jafngildir 1,9% verðbólgu á ári (7,6% fyrir vísitöluna án húsnæðis), að því er fram kemur á vef Hagstofu Íslands.