Sérfræðingar segja við Reutersfréttastofuna í dag, að Björgólfur Thor Björgólfsson verði væntanlega að sætta sig við mun lægra verð fyrir lyfjafyrirtækið Actavis en stefnt var að þegar söluferli félagsins hófst í byrjun ársins.
Novator, fjárfestingarfélag Björgólfs, keypti Actavis árið 2007. Félagið var síðan sett í sölumeðferð í janúar sl. og samkvæmt fréttum þá vonaðist Novator til að fá fyrir það allt að 7,5 milljarða evra. Önnur umferð söluferlisins hófst í byrjun mars.
Reuters hefur hins vegar eftir heimildarmönnum, sem sagðir eru þekkja vel til. að áhugi fyrirtækja á Actavis fari minnkandi. Er það m.a. rakið til þess, að verðmæti keppinauta Actavis, sem skráðir eru á markaði, hafi farið ört minnkandi að undanförnu. Þá kunni hugsanlegir kaupendur að hafa meiri áhuga á þýska lyfjaframleiðandanum Ratiopharm, sem áður var í eigu kaupsýslumannsins Adolf Merckle, en búist er við að það fyrirtæki verði boðið til sölu í apríl.
„Það verður afar erfitt að fá gott veerð vegna þess að kaupendur eru fáir og á sama tíma eru margar eignir settar í sölu," hefur Reuters eftir Andreas Theisen, sérfræðingi hjá WestLB.
Hann segir raunhæft að söluverð Actavis gæti orðið tífaldur EBITDA-hagnaður fyrir vexti, skatta, afskriftir en Novator hefur miðað við 10-15 falda EBITDU. Samkvæmt því gæti söluverðið verið í kringum 5 milljarða evra.
Reuters hefur eftir Beatrice Muzard, sérfræðingi hjá Natixis Securities, sem áætlaði í janúar að Actavis gæti selst á um 7 milljarða evra, að 5 milljarðar evra sé nú líklegri upphæð. Hún bendir á að gengi hlutabréfa þýska lyfjaframleiðandans Stada Arzneimittel AG hafi lækkað um rúmlega 40% á þessu ári.