Flugfélagið Icelandair hefur boðað til blaðamannafundar í Kaupmannahöfn í dag, að sögn fréttavefjar ferðablaðsins Take Off. Hefur blaðið eftir heimildarmönnum, að Icelandair ætli að kynna beint flug til Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna og fylla þannig skarð SAS, sem ætli að hætta að fljúga þangað.
Icelandair er með fasta áætlun milli Íslands og nokkurra borga í Norður-Ameríku, þar á meðal Boston, Minneapolis, New York og Orlando.
Í hádeginu í dag mun Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, kynna starfsmönnum félagsins mikilvægar breytingar á starfsmannafundi að Hótel Loftleiðum, samkvæmt upplýsingum frá Icelandair.