Verðbólga lækkar nú um 0,59% milli mánaða sem samsvarar 7,1% verðhjöðnun á ársgrunni. Stýrivextir er nú 17%, en peningastefnunefnd Seðlabankans lækkaði stýrivexti um eitt prósentustig í síðustu viku. Þetta þýðir að raunstýrivextir eru 24%.
Þau rök voru m.a. færð fyrir þessari stýrivaxtalækkun að mikilvægt væri að halda gengi krónunnar stöðugu í ljósi þess hve efnahagur heimila, fyrirtækja og banka væri viðkvæmur gagnvart gengissveiflum, m.ö.o. að lægri vextir veiktu krónuna.
Jón Helgi Egilsson verkfræðingur segir á vefsíðu sinni að háir vextir veiki raunhagkerfið og það á tíma þegar á því þarf síst að halda. Hærri vextir veiki þannig vonir um að efnahagslífið styrkist, sem valdi því að væntingar minnki og trú á gjaldmiðlinum einnig. Því minni trú sem sé á myntinni því fleiri yfirgefi hana.
Í reglum Seðlabankans um gjaldeyrismál segir að vextir, verðbætur, arður, hagnaðarhlutur af fjárfestingum og samningsbundnar afborganir teljist ekki vera fjármagnsflutningur í skilningi reglnanna. Vextir eru því undanþegnir gjaldeyrishöftunum og hærri vextir eru ávísun á meira gjaldeyrisútstreymi og þar með veikingu krónunnar. Krónan veiktist í síðustu viku þegar greiddir voru vextir af einum flokki ríkisskuldabréfa, en vaxtagreiðslan nam um þremur milljörðum króna. Eigendur bréfanna gátu leyst vaxtagreiðslurnar út í erlendum gjaldmiðlum á markaði. „Segjum sem svo að 500 milljarðar séu í eigu útlendinga inni í kerfinu og að þeir beri 17% vexti. Það samsvarar 84 milljörðum í vexti á ári eða nettó útflutningsverðmæti 442 þúsunda tonna af þorski. Til að mæta slíku árs gjaldeyrisútflæði, sem er bein afleiðing af hávaxtastefnu Seðlabankans, þá þarf innflæði sem samsvarar um það bil fjögurra ára þorskveiði,“ segir Jón Helgi.