Guðmundur Hauksson: Hlutafjárvæðing ekki mistök

Guðmundur Hauksson og Hildur Petersen.
Guðmundur Hauksson og Hildur Petersen. mbl.is/ÞÖK

Guðmundur Hauksson, fyrrverandi forstjóri SPRON, hafnar því með öllu að hlutafjárvæðing sparisjóðsins hafi verið mistök. Hann segir m.a að það hafi verið nauðsynlegt fyrir SPRON að hlutafjárvæðast og stækka þar með til þess að sinna betur þörfum samfélagsins.

Misráðin hlutafjárvæðing
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að hlutafjárvæðing sparisjóðanna hafiverið misráðin. SPRON var eini sparisjóðurinn sem hlutafjárvæddist en aðrir sparisjóðir settu stefnuna á hlutafjárvæðingu, eins og Byr, en lengi stóð til að félagið yrði hlutafélag og voru þær áætlanir settar á ís í aðdraganda bankahrunsins þrátt fyrir að hafa fengið samþykkt fundar stofnfjáreigenda fyrir breytingu á síðasta ári. Einnig gekk það ekki eftir að Sparisjóðurinn í Keflavík yrði að hlutafélagi, þrátt fyrir nokkurn áhuga stofnfjáreigenda á því að svo yrði.

„Það var ekki gert ráð fyrir því að þessi fyrirtæki yrðu einhvers konar fjárfestingarbankar sem veðjuðu mjög djarft á hlutabréfamarkaði. Þess í stað áttu sparisjóðirnir að vera staðbundnar fjármálastofnanir, tiltölulega rólegar og yfirvegaðar [sem] tóku litla áhættu. Þær þjónuðu ekki stórfyrirtækjum sérstaklega [heldur] heimamönnum og smærri fyrirtækjum,“ segir Gylfi. 

Við breytingu úr hlutafélagi í sparisjóð breytist eðli viðkomandi sparisjóðs og aðrar reglur gilda. Það þýðir að hin lögbundna regla um hámark 10% eignarhlut hvers stofnfjáreigenda gildir ekki sem þýðir að menn geta tryggt áhrif og völd yfir sparisjóðnum í krafti stærra eignarhalds. Sumir vilja meina að það sé einmitt á þessari forsendu sem menn hafi beitt sér fyrir breytingu úr sparisjóði í hlutafélag, til þess að ekkert hámark væri á eign. Guðmundur Hauksson hafnar þessu.

Skýrari löggjöf
„Hlutafélagabreytingin sem slík var eingöngu vegna þess að byggðin á því svæði sem við störfuðum á stækkaði mikið og þannig urðu fyrirtækin að vera fær um að stækka með því umhverfi sem hér var. Þá var auðvitað spurningin hvort ætti að gera það með því að auka eigið fé, fá meira inn, borga stofnfé, fara svokallaða norska leið eða fara alla leið inn í hlutafélagaformið,“ segir Guðmundur Hauksson, fyrrverandi forstjóri SPRON. „Það var niðurstaða manna að ef það var ætlunin að sækja fé til almennings inn í eigið fé þá væri hlutafélagsformið best til þess fallið. Löggjöf um hlutafélagaformið er skýrari og þá var lang eðlilegast að fyrirtækið væri skráð í Kauphöll. Þetta var ástæða þess að sett var heimild í löggjöfina árið 2001 sem gerði sparisjóðunum kleyft að hlutafélagavæðast, kysu þeir svo,“ segir Guðmundur.

Guðmundur segir að ef sparisjóðirnir hefðu ekki haft aðgang að auknu eigin fé hefði stækkun þeirra verið útilokuð vegna eiginfjárreglna. „Þetta var ekki bara spurning um að stækka til að verða stór. Til þess að sinna þörfum samfélagsins var stækkun nauðsynleg,“ segir Guðmundur.  

Gylfi Magnússon.
Gylfi Magnússon. mbl.is / Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK