Erfitt framundan hjá lífeyrissjóðum

Aukin áhættufælni og lækkandi raunvextir munu gera lífeyrissjóðum erfitt fyrir með að viðhalda nauðsynlegri raunávöxtun á næstu misserum og árum, segir Pétur Blöndal alþingismaður.

Fall bankanna síðasta haust hefur valdið lífeyrissjóðakerfinu miklum búsifjum. Innlend hlutabréfaeign þeirra er því sem næst horfin og svipaða sögu er að segja um fjárfestingar í skuldabréfum banka og stórfyrirtækja.

Afleiðingin er sú að raunávöxtun lífeyrissjóðakerfisins var afleit á síðasta ári og munu sumir sjóðir þurfa að skerða lífeyrisréttindi sjóðfélaga til framtíðar.

„Auk mögulegrar skerðingar réttinda verður að horfa til þróunar undanfarinna ára,“ segir Pétur. „Lífeyrir félaga í almennum lífeyrissjóðum er verðtryggður miðað við vísitölu neysluverðs, sem hefur hækkað minna en launavísitalan undanfarin ár. Hafa lífeyrisþegar því dregist aftur úr launþegum og horfa nú fram á enn frekari skerðingu réttinda.“

Til að viðhalda greiðslugetu sinni til lengri tíma er miðað við að lífeyrissjóðir þurfi að ná að meðaltali 3,5% raunávöxtun á ári. Miðað við bráðabirgðatölur Fjármálaeftirlitsins hefur raunávöxtun síðustu tíu ár hins vegar verið 2,5%, sem er töluvert undir þessu marki. „Aukin áhættufælni samfylgjandi lækkun raunvaxta mun gera lífeyrissjóðum erfiðara fyrir en ella að halda ná 3,5% markmiðinu á næstu árum.“

Önnur spurning, sem snýr að stöðu lífeyrissjóðanna í kjölfar bankahrunsins, er sú að hve miklu leyti sjóðirnir eru búnir að afskrifa fjárfestingar í skuldabréfum banka og fyrirtækja. Benedikt Jóhannesson tryggingasérfræðingur segist hafa lagt hart að stjórnendum lífeyrissjóða að horfast í augu við stöðuna og hika ekki við afskriftir. „Mun betra er að klára nauðsynlegar afskriftir núna í staðinn fyrir að þurfa að afskrifa þær síðar á þessu ári eða því næsta.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK