„Markhópur námskeiðsins er náttúrlega þeir sem þurfa að taka afstöðu til þess hvort ásreikningar fyrirtækja sýna hlutina fallegri en þeir raunverulega eru,“ segir Bjarni Frímann Karlsson sem kennir nýtt námskeið hjá Endurmenntun HÍ, Matsreglur ársreikningalaga, þar sem fjallað er um helstu leiðir til að bæta útlitið á rekstri fyrirtækja í ársreikningum.
„Þó að lögin eigi að vera skýr og afmarkandi má finna stöku stað þar sem fyrirmæli laganna eru nokkuð loðin og gefa ákveðið svigrúm. Maður skyldi ætla að ársreikningar fyrirtækja væru nákvæmir og gæfu sem allra skýrasta mynd en þegar að er gáð eru ýmsar stærðir í ársreikningum matskenndar.“
Bjarni Frímann segir það helst geta þótt eftirsóknarvert að „fegra“ ársreikninga til að bæta hlutfall eigna á móti skuldum: „Með því sýnist eigið fé fyrirtækisins meira en það hefur löngum verið talinn góður mælikvarði á fjárhagslega hreysti félags,“ útskýrir hann en Bjarni er lektor við viðskiptafræðideild HÍ og hefur einnig kennt hjá Endurmenntun námskeiðin Lestur ársreikninga og Greining ársreikninga.
Bjarni Frímann nefnir einnig þá iðju að verðmeta birgðir óeðlilega hátt: „Menn hafa stundum, ef í óefni er komið, gripið til þessa ráðs að ofmeta birgðirnar í árslok. Með því er bæði verið að laga rekstrarreikninginn, þ.e. láta virðast sem meiri hagnaður hafi verið af rekstrinum, og einnig stækkar efnahagsreikningurinn við það þar sem eignir félagsins virðast meiri og þar með eigið fé.“
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.