Mikil óvissa ríkir nú um framtíð bílaiðnaðar víða um heim. Tveir forstjórar stórfyrirtækja, forstjóri Peugeot í Frakklandi, og forstjóri General Motors í Bandaríkjunum voru í gær neyddir til að hætta störfum. Gengi Bandaríkjadals lækkaði í morgun vegna vondra frétta af þarlendum bílasmiðjum.
Þá hefur starfshópur Bandaríkjastjórnar komist að þeirri niðurstöðu, að áætlanir bílaframleiðandanna Chrysler og GM um fjárhagslega endurskipulagningu séu ekki raunhæfar. Bæði fyrirtækin hafa óskað eftir frekari ríkisstyrk frá Bandaríkjastjórn. Barack Obama, Bandaríkjaforseti, mun síðar í dag kynna aðgerðir, sem fyrirhugaðar eru til að aðstoða þarlenda bílaframleiðendur.
Gengi bréfa Peugeot Citroën lækkaði um 3,3% í kauphöllinni í París í morgun vegna frétta af því að Christian Streiff hefði verið rekinn úr forstjórastarfinu í gær. Í yfirlýsingu frá stjórn félagsins segir, að hún hafi samþykkt samhljóða, að nauðsynlegt væri að gera breytingar á framkvæmdastjórninni vegna þeirra erfiðleika, sem steðjuðu að bílaiðnaðinum.
Philippe Varin, núverandi forstjóri ensk-hollensku stálframleiðslunnar Coros, mun tala við af Streiff 1. júní. Streiff, sem hefur verið forstjóri Peugeot í 2 ár, sagði að ákvörðun stjórnarinnar væri óskiljanleg.
Tap á rekstri Peugeot á síðasta ári nam 343 milljónum evra. Búist er við mun meira rekstrartapi á yfirstandandi ári.
Bandarísku bílasmiðirnir Chrysler og GM hafa fengið samtals 17,4 milljarða dala ríkisframlag til að halda rekstrinum gangandi og hafa farið fram á 21,6 milljarða dala til viðbótar. Bandaríkjastjórn gerði samkomulag við fyrirtækin um að þau legðu fram raunhæfa rekstraráætlun. Starfshópur á vegum Bandaríkjastjórnar hefur nú farið yfir þessar áætlanir og komist að því að þær séu ekki raunhæfar og uppfylli ekki skilyrði, sem sett voru í samkomulaginu við ríkið.
Starfshópurinn tekur raunar dýpra í árinni um Chrysler og af orðalagi í skýrslu um fyrirtækið má draga þá ályktun að framtíð þess sé afar óviss.
GM staðfesti í morgun, að Rick Wagoner væri að hætta störfum sem forstjóri og Fritz Henderson tæki við starfinu. Að sögn embættismanna krafðist ríkisstjórn Baracks Obama þess, að Wagoner viki.