Tap á rekstri Eimskips nam 40 milljónum evra, jafnvirði 6,5 milljarða króna á núverandi gengi, á fyrsta fjórðungi rekstrarárs félagsins frá nóvemberbyrjun til janúarloka. Á sama tíma á síðasta ári var tæplega 39 milljóna evra tap á rekstrinum.
Fram kemur í tilkynningu, að eigið fé Eimskips hafi í lok janúar verið neikvætt um 174 milljónir evra, sem svarar til 28,5 milljarða króna.
Í tilkynningunni segir, að yfir standi fjárhagsleg endurskipulagning með aðstoð íslenskra og erlendra ráðgjafa. Þar skipti miklu máli sala eigna í Norður-Ameríku en hún hafi bæði tekið lengri tíma en áætlað var og einnig muni hún skila minna fé en gert var ráð fyrir.