Capacent Glacier er nýtt ráðgjafarfyrirtæki þar sem marga ára reynsla starfsmanna Capacent á sviði fjármálaráðgjafar og þekking og tengsl fyrrum starfsmanna Glitnis í ráðgjöf til alþjóðlegra fyrirtækja í sjávarútvegi og jarðvarma hefur verið sameinuð með samstarfi við ráðgjafarfyrirtækin Glacier Partners í Bandaríkjunum og Pritchard Capital, sem er sérhæft verðbréfafyrirtæki á orkusviði, segir í tilkynningu frá félaginu.
Capacent Glacier er með 12 starfsmenn á Íslandi og Glacier Partners er með sex starfsmenn í Bandaríkjunum. Félagið er að helmingi í eigu Capacent og að helmingi í eigu stjórnenda. Capacent Glacier veitir víðtæka fjármálaráðgjöf á innlendum markaði, m.a. ráðgjöf við kaup og sölu fyrirtækja, fjárhagslega endurskipulagningu, verðmöt og virðisrýrnunarpróf . Á alþjóðlegum vettvangi einbeitir félagið sér að fyrirtækjaráðgjöf á sviði sjávarútvegs og jarðvarma.
Mikil verðmæti í þekkingu starfsmanna
Magnús Bjarnason, sem bar ábyrgð á starfsemi Glitnis á sviði endurnýjanlegrar orku og sjávarútvegs, leiðir félagið og Sigurður Harðarson, sem veitt hefur fjármálaráðgjöf Capacent forstöðu, er framkvæmdastjóri rekstrar. „Það felast mikil verðmæti í þekkingu og tengslum starfsmanna Capacent Glacier á sviði jarðvarma og sjávarútvegs," er haft eftir Magnúsi Bjarnasyni, framkvæmdastjóra. „Við Íslendingar erum samkeppnishæfir á alþjóðlega vísu í þessum atvinnugreinum og við teljum það skyldu okkar að halda áfram margra ára uppbyggingarstarfi á þessu sviði. Ráðgjöf við sjávarútvegs- og jarðvarmafyrirtæki hefur skilað góðum árangri síðustu ár og við teljum okkur áfram geta skapað verðmæti úr þekkingu okkar og viðskiptatengslum með þessu samstarfi við Capacent."
Magnús segir að sérhæfing starfsmanna félagsins skipti einnig miklu máli fyrir íslensk fyrirtæki sem eru í fremstu röð á alþjóðlegum vettvangi í sjávarútvegi og jarðvarma.
Meðal annarra starfsmanna fyrirtækisins eru Jón Garðar Guðmundsson sem ber ábyrgð á sjávarútvegsmálum og Sigurður Valgeir Guðjónsson, sem leiðir fyrirtækjaráðgjöf félagsins. Starfsmenn Capacent Glacier eru 18 talsins, 12 á Íslandi og sex hjá Glacier Partners í Bandaríkjunum, þar á meðal Timothy Spanos, sem starfði í tuttugu ár hjá Bank of America, Sigurður Jón Björnsson, sem tók þátt í uppbyggingu Framtaks fjárfestingabanka og Ignacio Kleiman, sem stafað hefur fyrir Rabo Bank, Deutche Bank og JP Morgan.
Öflugir og óháðir
„Við lítum á Capacent Glacier sem einn öflugasta, óháða aðilann á sviði fjármálaráðgjafar á Íslandi,“ segir Sigurður Harðarson, framkvæmdastjóri rekstrar. Hann segir að með sérfræðiþekkingu fyrirtækisins í fyrirtækjaráðgjöf og fjárhagslegri endurskipulagningu, sem og fjárfestatengslum, bæði innanlands og utan, sé félagið í mjög vel stakk búið að taka þátt í endurreisn íslensks atvinnulífs á næstu árum. „Áralöng reynsla ráðgjafa okkar, fagleg vinnubrögð og góð reynsla viðskiptavina er sá grundvöllur sem við byggjum ár.“
Samstarf Capacent Glacier og ráðgjafareininga Capacent, bæði á Íslandi og á Norðurlöndunum, skapar einnig grundvöll fyrir nýja þjónustu við viðskiptavini, svokallaða „one stop shop“ þjónustu, að sögn Ingva Þórs Elliðasonar, forstjóra Capacent á Íslandi. „Enginn einn aðili hefur til þessa getað boðið upp á þjónustu á sviði fjárhagslegar endurskipulagningar, fjármögnunar, ráðninga, markaðsrannsókna, stefnumótunar og stjórnunarráðgjafar,“ segir Ingvi Þór. Hann segir að með stofnun Capacent Glacier sé forystu Capacent í ráðgjöf haldið áfram, en rúmlega 500 sérfræðingar eru nú starfandi innan fyrirtækisins, þar af 100 á Íslandi.