Í febrúarmánuði voru fluttar út vörur fyrir 32,3 milljarða króna og inn fyrir 26,4 milljarða króna, samkvæmt útreikningum Hagstofunnar. Vöruskiptin í febrúar, reiknuð á fob verðmæti, voru því hagstæð um 5,9 milljarða króna. Í febrúar 2008 voru vöruskiptin óhagstæð um 18,6 milljarða króna á sama gengi.
Fram kemur í tilkynningu Hagstofunnar, að miðað er við meðalgengi á vöruviðskiptavog sé meðalverð erlends gjaldeyris 59,6% hærra mánuðina janúar–febrúar 2009 en sömu mánuði fyrra árs. Í febrúar var meðalverð erlends gjaldeyris 48,2% hærra en í febrúar í fyrra.
Fyrstu tvo mánuðina 2009 voru fluttar út vörur fyrir 65,9
milljarða króna en inn fyrir 59,6 milljarða króna. Afgangur var því á vöruskiptunum við útlönd, reiknað á fob
verðmæti, sem nam 6,3 milljörðum en á sama tíma árið áður voru þau
óhagstæð um 35,9 milljarða á sama gengi. Vöruskiptajöfnuðurinn var því
42,2 milljörðum króna hagstæðari en á sama tíma árið áður.
Útflutningur
Fyrstu
tvo mánuði ársins 2009 var verðmæti vöruútflutnings 4,2 milljörðum eða
6% minna á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru
42% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 13,6% minna en á sama tíma
árið áður. Útfluttar iðnaðarvörur voru 49% alls útflutnings og var
verðmæti þeirra 5,4% minna en á sama tíma árið áður. Mestur samdráttur
varð í útflutningi sjávarafurða, aðallega frystra flaka en á móti kom
aukning í útflutningi áls og skipa og flugvéla.
Innflutningur
Fyrstu tvo mánuði ársins 2009 var
verðmæti vöruinnflutnings 46,5 milljörðum eða 43,8% minna á föstu
gengi en á sama tíma árið áður. Mestur varð samdrátturinn í
innflutningi á flutningatækjum, aðallega fólksbílum, og í innflutningi
á fjárfestingavöru og neysluvöru annarri en mat- og drykkjarvöru.