Laust fé deCODE nam 3,7 milljónum dala, jafnvirði 450 milljóna króna, um síðustu áramót. Fram kemur í tilkynningu um afkomu fyrirtækisins á síðasta ári, að félagið hafi í byrjun ársins selt skuldabréf fyrir 11 milljónir dala og notað það fé til að fjármagna reksturinn. Nú telji stjórnendur deCODE að laust fé nægi aðeins til að fjármagna reksturinn fram á annan ársfjórðung.
Kári Stefánsson, forstjóri, segir í tilkynnningu, að deCODE hafi þróað vörur og hugmyndir sem eigi mikla möguleika. Hins vegar þurfi fyrirtækið að afla fjár til að geta haldið áfram rekstri í náinni framtíð. Nú standi yfir viðræður um ýmis mál, svo sem um hugsanlega sölu rekstardeilda og áætlana og rekstrarleyfa fyrir ýmis greiningarpróf, samstarf um kortlagningu genamengis, endurskipulagningu skulda og auka hlutafé.
Tap á rekstri deCODE nam 18 milljónum dala, jafnvirði 2,2 milljarða króna, á síðasta fjórðungi ársins 2008 samanborið við 32,4 milljóna dala tap á sama tímabili 2007. Tap á öllu síðasta ári nam 80,9 milljónum dala, jafnvirði rúmlega 9,9 milljarða króna, samanborið við 95,5 milljónir dala árið 2007.
Tekjur félagsins á síðasta ári námu 58,1 milljón dala samanborið við 40,4 milljónir árið á undan. Handbært fé í árslok var 12 milljónir dala.