Skilanefnd Landsbankans var ekki með í ráðum þegar HSBC bankinn í Bretlandi seldi í gær 13% hlut í verslunarkeðjunni Debenhams, sem áður var í eigu Baugs Group í Bretlandi.
Fram kemur í viðskiptablaðinu Financial Times að Landsbankinn hafi gert athugasemdir við söluna, sem varð til þess að gengi bréfa Debenhams lækkaði um 11%.
Alls var um að ræða 115,8 milljónir hluta, sem seldir voru á genginu 45 sent eða samtals fyrir 52 milljónir punda, jafnvirði rúmlega 9 milljarða króna.
FT hefur eftir talsmanni skilanefndar Landsbankans, að lögfræðingar bankans séu að skoða málið. HSBC vildi ekki tjá sig en breski bankinn sagðist í gær vera eini seljandi bréfanna.
Bloomberg fréttastofan vitnar í tölvupóst frá upplýsingafulltrúa HSBC í Lundúnum þar sem segir, að um sé að ræða bréf sem formlega séu í eigu Landsbankans. Hann vildi hins vegar ekki tjá sig frekar.
Baugur var í viðskiptum hjá Landsbankanum áður en bankinn leysti til sín veð BG Holding, dótturfélags Baugs í Bretlandi sem sá um eignirnar þar. BG Holding var í febrúar sett í greiðslustöðvun að kröfu skilanefndar Landsbankans.