Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, birti í kvöld lista yfir þau ríki, sem skilgreind eru sem skattaskjól og hafa ekki gert sig líkleg til að virða alþjóðlegar viðmiðanir um upplýsingagjöf.
Er þetta gert í kjölfar samkomulags sem náðist á leiðtogafundi G20 ríkjanna í Lundúnum í kvöld og felur í sér að gripið verði til aðgera gegn slíkum ríkjum. OECD segir að fjögur ríki séu nú á þessum svarta lista: Kosta Ríka, Malasíu, Filippseyjar og Úrúgvæ
Þá birti OECD lista yfir 38 ríki, sem hafa heitið því að uppfylla alþjóðlegar skattakröfur en hafa ekki enn gert gangskör að því. Þetta eru m.a. Belgía, Brunei, Chile, Hollensku Antillaeyjar, Gíbraltar, Liechtenstein, Lúxemborg, Mónakó, Singapúr, Sviss, Bahama, Bermúda og Caymaneyjar.
Á þriðja listanum eru 40 ríki, sem hafa að mestu uppfyllt alþjóðlegar skattaupplýsingakröfur. Á þeim lista eru m.a. Norðurlöndin öll, Bretland, Kína, að undanskildum sjálfsstjórnarsvæðum, Frakkland, Þýskaland, Rússland og Bandaríkin.
Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, sagði þegar hann gerði grein fyrir niðurstöðu leiðtogafundarins í Lundúnum í dag, að samkomulag væri um að útrýma skattaskjólum sem gæfu ekki upplýsingar þegar eftir því væri leitað. „Bankaleynd fortíðarinnar verður að linna," sagði hann.