Fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Timothy Geithner, er reiðubúinn til þess að segja upp helstu stjórnendum banka sem þurfa á ríkisaðstoð að halda. Segir hann að stjórnvöld íhugi að víkja framkvæmdastjórnum bankanna frá til þess að tryggja rétt bandarískra skattgreiðenda. Þetta kom fram í viðtali við ráðherrann á CBS sjónvarpsstöðinni í gærkvöldi.
Bandarísk stjórnvöld hafa rekið forstjóra bandaríska bílaframleiðandans General Motors Rick Wagoner. Hafa ýmsir gagnrýnt það að forstjórar og yfirmenn í bandarískum bönkum sem hafa þurft á margvíslegri aðstoð að halda að undanförnu hafi ekki farið sömu leið og Wagoner.