Starfsmenn HB Granda fengu að meðaltali 9,6 milljónir króna í árslaun á síðasta ári miðað við skráð gengi evrunnar í dag. Það gera um 798 þúsund krónur að meðaltali á mánuði. 607 heilsársstörf eru hjá fyrirtækinu.
Í ársskýrslu HB Granda kemur fram að launagreiðslur á síðasta ári námu 36 milljónum evra. Að auki voru sex milljónir evra greidd í launatengd gjöld.
Sé bara horft til launagreiðslnanna nemur upphæðin um 5,8 milljörðum íslenskra króna. Miðað við 607 heilsársstörf fær hver starfsmaður 9,6 milljónir í laun á ári eða 798 þúsund krónur á mánuði.
Forstjóralaunin 2,8 milljónir kr.
Eggert B. Guðmundsson, forstjóri, var með 211 þúsund evrur í laun á síðasta ári. Miðað við gengi evrunnar sé 161,5 krónur jafngildir það 34 milljónum króna í árslaun eða 2,8 milljónir á mánuði.
Fimm millistjórnendur voru samtals með 540 þúsund evrur í laun á sama tímabili eða 87,2 milljónir króna. Það jafngildir um 1,5 milljón króna í mánaðarlaun fyrir hvern þeirra. Í hópi millistjórnenda eru Jóhann Sigurjónsson, fjármálastjóri, Rúnar Þór Stefánsson, útgerðarstjóri, Svavar Svavarsson, markaðsstjóri, Torfi Þ. Þorsteinsson, framleiðslustjóri og Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávardeildar.
HB Grandi er með stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Fyrirtækið ræður yfir miklum kvóta og gerir út fimm frystiskip, þrjá ísfisktogara og fjögur uppsjávarskip. Sjómenn fá hlutdeild í aflaverðmæti skipanna í laun og er meðal hálaunastétta í landinu.