Hugbúnaðarfyrirtækið CCP skilaði fimm milljón dala , 629 milljón króna, hagnaði á árinu 2008. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem var birtur í dag. Það er umtalsvert meiri hagnaður en árið áður þegar CCP græddi um þrjár milljónir dala, eða um 377 milljónir króna. Helsta tekjulind fyrirtækisins er nettölvuleikurinn EVE Online en áskrifendur að honum voru 244.551 talsins í árslok 2008.
Eignir félagsins voru metnar á 43,8 milljónir dala í lok síðasta árs en skuldir þess voru á sama tíma um 25 milljónir dala. Þá fjölgaði starfsmönnum félagsins alls um 92 á árinu 2008, fóru úr því að vera 261 í að vera 353. CCP er með starfstöðvar í þremur borgum: Reykjavík, Sjanghæ í Kína og Atlanta í Bandaríkjunum.
Laun og annar rekstarkostnaður hjá fyrirtækinu nam 18.6 milljónum dala á síðasta ári en þar af fóru um 7,3 milljónir dalir í þróunarkostnað.