Miklar breytingar hafa átt sér stað á gjaldeyrismarkaði síðasta mánuðinn. Til að mynda hefur gengi evrunnar hækkað um 16,57% gagnvart íslensku krónunni frá 7. mars sl., samkvæmt skráðu gengi á vef Seðlabanka Íslands. Þann 7. mars sl. var evran skráð á 143,16 krónur en í dag er hún skráð á 166,88 krónur.
Bandaríkjadalur hefur hækkað um 11,40% gagnvart krónunni á sama tímabili, var 112,91 króna en er í dag 125,78 krónur. Pundið hefur hækkað um 14,69%, úr 160,54 krónum í 184,13 krónur. Danska krónan hefur hækkað um 16,60% úr 19,215 krónum í 22,404 krónur. Japanska jenið hefur hins vegar ekki hækkað nema um 7,5% á tímabilinu, úr 1,168 krónum í 1,256 krónur.