Haldinn verður opinn fundur um málefni Byrs Sparisjóðs í dag klukkan fimm á Grand Hóteli við Gullteig. Til umfjöllunar verða viðskipti stjórnenda og stjórnarmanna í sjóðnum frá því viðskiptabankarnir þrír, Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn, hrundu í byrjun október í fyrra.
Þau sem standa að fundinum eru Sveinn Margeirsson dr. í iðnaðarverkfræði og kona hans, Rakel Gylfadóttir, en þau eru bæði stofnfjáreigendur í Byr. Sveinn segir viðskipti stjórnenda sjóðsins, eftir bankakerfið hrundi, vera um margt „vafasöm“, og mikilvægt sé fyrir stofnfjáreigendur að kynna sér þau.
Sett hefur verið upp vefsíða, www.verjumbyr.blog.is, þar sem nánari grein er gerð fyrir því hvers vegna boðað er til fundarins og þeim álitamálum sem verða til umræðu á fundinum.