Stofnfjáreigendur í Byr sparisjóði hvetja stjórnvöld til þess að styðja við sparisjóðinn og tryggja að í stjórnendateymi sparisjóðsins verði einungis skipað grandvart og heiðarlegt fólk.
Þetta kemur í ályktun fundar sem haldinn var á Grand Hóteli í dag, en Sveinn Margeirsson, verkfræðingur og stofnfjáreigendi í Byr og Rakel Gylfadótir eiginkona hans boðuðu til fundarins undir yfirskriftinni „Stöndum vörð um Byr sparisjóð."
Ályktunin, sem var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta fundarmanna, er svohljóðandi:
Fundurinn hvetur stjórnvöld til að styðja við rekstur sparisjóðsins og tryggja með því eðlilega þjónustu og samkeppni á fjármálamarkaði Íslendingum öllum til heilla. Jafnframt vill fundurinn af gefnu tilefni hvetja stjórnvöld til að tryggja að í stjórn sparisjóðsins og æðsta stjórnendateymi verði einungis skipað grandvart og heiðarlegt fólk sem tilbúið er að vinna af trúmennsku í þágu fyrirtækisins, án þess að persónulegir hagsmunir viðkomandi eða annarra fyrirtækja þeim tengdum, gangi þar framar.