Landsbankinn hefur tekið yfir eignarhaldsfélagið Imon, sem er í eigu Magnúsar Ármanns, og er þar með orðinn stærsti hluthafinn í Byr sparisjóði. Samkvæmt nýuppfærðum lista sparisjóðsins er hluturinn um 7,5 prósent af heildarhlutafé sjóðsins.
Fjármálaeftirlitið (FME) hefur til rannsóknar viðskipti sem snerta Imon og kaup þess á rúmlega fjögurra prósenta hlut í Landsbankanum síðasta virka daginn áður en Landsbankinn var tekinn yfir af skilanefnd FME í október í fyrra. Ekki hefur verið upplýst um hver átti bréfin sem Imon keypti.
Greint hefur verið frá í því í Morgunblaðinu að Imon var komið í veruleg vandræði þegar viðskiptin áttu sér stað, og gamli Landsbankinn í raun búinn að taka félagið yfir. Hvorki forsvarsmenn nýja Landsbankans, né gamla, hafa viljað upplýsa um hver var eigandi bréfanna sem Imon keypti skömmu fyrir hrun þegar eftir því hefur verið leitað.