Fékk enga sérmeðferð

Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs sparisjóðs segist hafa tapað töluverðum fjármunum á kaupum á hlutabréfum. Hann segist ekki hafa fengið neina sérmeðferð í viðskiptum við MP banka.

„Eins og margir aðrir á undanförnum árum, undirgekkst undirritaður á hendur persónulegar skuldbindingar vegna hlutafjárkaupa. Í lok sumars 2008 var fyrirséð að stutt yrði í að verðmæti hlutabréfa minna færi niður fyrir skuldsetningu þeirra. Því tók ég þá ákvörðun í septembermánuði síðastliðnum, að gera upp allar mínar skuldbindingar gagnvart MP Banka. Vildi ég með því koma í veg fyrir frekara tap af fjárfestingum mínum. Fólst í því framsal á stofnfjárbréfum í BYR, öðrum hlutbréfum og að auki greiddi ég bankanum töluverða fjármuni í reiðufé. Því blasir við fyrir að ég bar töluvert tap af þessum viðskiptum, en hagnaðist ekki.

Uppgjörið átti sér stað, sem fyrr segir, í september 2008, en í þeim mánuði var enginn stjórnarfundur hjá BYR Sparisjóði. Viðskiptin voru hins vegar formlega staðfest á stjórnarfundi þann 7. október 2008, sem var fyrsti fundurinn eftir fyrrgreint uppgjör mitt við MP Banka. Þetta hefur valdið þeim leiða misskilningi að viðskiptin hafi átt sér stað í október, þegar þau í raun fóru fram í september. Í millitíðinni áttu sér stað þau boðaföll sem við öll þekkjum á íslenskum fjármálamarkaði, sem endaði með falli viðskiptabankanna.

Látið hefur verið að því liggja að gengið í þessum viðskiptum hafi verið hærra en eðlilegt mætti teljast. Hið rétta er að þegar fyrrgreint uppgjör fór fram, var eigið fé BYR Sparisjóðs um 46 milljarðar króna. Svonefnt Q-hlutfall í viðskiptunum (markaðsverð/eigið fé) var því í kringum 1,2 en ekki 3,5 eins og ranglega hefur verið haldið fram. Það er enn fremur alrangt að ég hafi fengið einhvers konar sérmeðferð í viðskiptum mínum við MP Banka. Þvert á móti þurfti ég að taka á mig umtalsvert tap til að gera upp viðskipti mín við bankann.

Því hefur enn fremur verið haldið fram að undirritaður tengist með einhverjum hætti félaginu Exeter Holding sem keypti umrædd stofnfjárbréf af MP Banka. Hið rétta er að engin fjárhags-, eigna- eða hagsmunatengsl eru á milli mín og félagsins og hafa aldrei verið. Það er mér með öllu óviðkomandi og furða ég mig á því að slíkum rangfærslum hafi verið komið á kreik.

Segja má að eftir að á að hyggja hefði verið heppilegra að BYR Sparisjóður hefði leitað frekari trygginga vegna lánveitinga sparisjóðsins til áðurnefnds Exeter Holding. Það var því miður lenska í bankakerfinu á síðustu árum að veitt væru lán, eingöngu með veðum í þeim bréfum sem fjárfest var í. Ljóst er að öll fjármálafyrirtæki þurfa að draga af því nauðsynlegan lærdóm. Ég, sem fyrrverandi stjórnarformaður BYR Sparisjóðs, tek að sjálfsögðu á mig minn hluta ábyrgðarinnar á því sem kann að hafa mátt betur fara. Það er jú alltaf auðvelt að vera vitur eftir á, eins og við þekkjum flest.

Ég vil að lokum árétta að ég hef í öllum mínum störfum fyrst og fremst borið hag BYR Sparisjóðs, starfsmanna hans og stofnfjáreigenda fyrir brjósti.  Grunnrekstur BYR Sparisjóðs hefur til allrar hamingju gengið vel, á meðan margar lánastofnanir hafa því miður fallið í valinn. Ég veit að BYR Sparisjóður mun standa sterkur áfram á íslenskum fjármálamarkaði, og það er einlæg von mín að sem flestir stofnfjáreigendur sjái sér fært að mæta á aðalfund BYR Sparisjóðs, sem haldin verður þann 13. maí næstkomandi, kl. 16:00 að Hilton Hótel Nordica í Reykjavík."  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK