Kaupþing yfirtekur viðskiptaveldi Tchenguiz

Robert Tchenguiz.
Robert Tchenguiz.

Kaupsýslumaðurinn Robert Tchenguiz og skilanefnd gamla Kaupþings deila nú, að sögn breska blaðsins Observer, um hvernig eigi að skipta andvirði verslunarkeðjunnar Somerfield, sem seld var í mars. Bæði Tchenguiz og Kaupþing áttu hlut í Somerfield ásamt Apax Partners og Barclays Capital. Co-operative Group keypti Somerfield fyrir 1,56 milljarða punda, jafnvirði 29 milljarða króna.

Observer fjallar í dag ýtarlega um Tchenguiz, sem sagður er sá kaupsýslumaður í Bretlandi, sem tapað hefur mest á fjármálakreppunni. Tchenguiz átti í flóknu viðskiptasambandi við Kaupþing og nú eru endurskoðendur og lögmenn á vegum skilanefndar bankans að saumfara allar lánveitingar til hals. Kaupþing hefur þegar leyst til sín stærsta hluta viðskiptaveldis Tchenguiz, eignir sem settar voru að veði fyrir lánum í október skömmu fyrir fall bankans.

Blaðið segir, að gamla Kaupþing eigi nú tvö fyrirtæki, sem standa að La Tasca veitingahúsakeðjunni, kráarkeðjurnar Yates og  Slug & Lettuce, stóran hlut í verslunarkeðjunni J Sainsbury, sem reyndar hefur verið seldur, og pöbbakeðjuna  Mitchells & Butlers. Einnig hafi bankinn lagt hald á hlut í tölvuleikjaframleiðandanum SCi Entertainment, sem m.a. framleiðir leiki um Laru Croft, og litla hluti í ölgerðunum Marston's og Greene King.

Observer segir, að skilanefnd Kaupþings ætli að kanna alla þætti viðskiptasambands fyrrum stjórnenda bankans við stóra viðskiptavini, þar á meðal Tchenguiz, sem var stærsti viðskiptavinur Kaupþings.  Engar ásakanir hafa komið fram um að eitthvað misjafnt hafi átt sér stað en rannsóknin beinist að því að kanna hvort um hafi verið að ræða hagsmunaárekstra.

„Þetta er mjög óþægilegt á yfirborðinu," hefur blaðið eftir heimildarmanni sem sagður er þekkja til mála og vísar til margvíslegra tengsla Kaupþings og Tchenguiz. Heimildarmaðurinn sagðist hins vegar ekki vita til að rannsóknin hefði leitt neitt óeðlilegt í ljós. 

Tchenguiz hefur sjálfur lýst því yfir í Morgunblaðsgrein, að fullyrðingar um að fyrirtæki honum tengd hefðu notið sérstakrar fyrirgreiðslu væru algerlega ósannar.

Lán Kaupþings til fyrirtækja á vegum Tchenguiz námu 230 milljörðum króna sl. sumar eða um 46% af innlánum bankans. Í október innkallaði Kaupþing stóran hluta lánanna en með litlum árangri. Síðar kom í ljós, að félagið Oscatello Investments, eitt af fyrirtækjum Tchenguiz, skuldaði Kaupþingi enn rúma 120 milljarða króna. Kaupþing á nú Oscatello.

Grein Observer um Tchenguiz og Kaupþing

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK