Ekkert bólar á IMF láni

Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington.
Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington.

Rétt rúmur mánuður er síðan Íslandsleiðangri sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) lauk en niðurstaða sendinefndarinnar liggur enn ekki fyrir og af þeim sökum bíður önnur greiðsla láns IMF að upphæð 155 milljónir dala enn afgreiðslu. Önnur greiðsla lánsins er háð framvindu efnahagsmála hér á landi og mati sendinefndarinnar á því  hvernig gengur að framfylgja þeirri efnahagsáætlun sem IMF og íslensk stjórnvöld samþykktu í nóvember síðastliðnum.

Ekki liggur fyrir hvenær stjórn sjóðsins getur tekið afgreiðslu lánsins fyrir en skortur á gögnum tefur afgreiðsluna samkvæmt upplýsingum sem hafa borist frá IMF og íslenskum stjórnvöldum. Beðið er eftir  efnahagsreikningum bankanna sem enn liggja ekki fyrir sem og fullnægjandi gögnum um skuldastöðu ríkisins m.a. í tengslum við Icesave deiluna, að því er fram kemur í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þegar allt gengur vel og öll skilyrði eru uppfyllt fer afgreiðsla lána frá IMF fram rúmum mánuði eftir að sendinefnd lýkur störfum sínum. Skýrsla sendinefndar er þá birt tæpum mánuði eftir að heimsókn nefndarinnar líkur, samkvæmt Morgunkorni.

Slík var t.d. raunin með Ungverjaland nýlega en sendinefnd IMF lauk heimsókn sinni þangað í tengslum við fyrstu endurskoðun 16. febrúar síðastliðinn og 12. mars var skýrsla sendinefndarinnar birt á heimasíðu sjóðsins. Þann 25. mars tók svo framkvæmdarstjórn IMF málið fyrir og önnur greiðsla lánsins var framkvæmt skömmu síðar.

Hinsvegar er ekki óalgengt að afgreiðsla lána tefjist líkt og raunin er með Ísland en afgreiðsla lána til bæði Lettlands og Úkraínu tafðist einnig nokkuð hjá sjóðnum. Lánaafgreiðsla til Lettlands hefur frestast vegna ónægs niðurskurðar í ríkisfjármálum og þá frestaðist afgreiðsla láns til Úkraínu vegna mikils óstöðugleika þar í landi og skorts stjórnvalda á að sýna vilja til að framfylgja þeirri efnahagsáætlun sem IMF og stjórnvöld höfðu áður náð samkomulagi um.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK