Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,1% í marsmánuði í Bandaríkjunum frá febrúarmánuði. Nemur lækkun vísitölunnar 0,4% á milli mars í ár og mars í fyrra. Er þetta í fyrsta skipti sem vísitalan lækkar á milli ára í 54 ár. Spá Seðlabanka Bandaríkjanna hljóðar upp á frekari verðhjöðnun þar í landi næstu mánuði.
Samkvæmt Bloomberg höfðu sérfræðingar að meðaltali spáð 0,1% hækkun vísitölu neysluverðs í mars.
Kostnaður neytenda, fyrir utan mat og orku, jókst um 0,2% á milli mánaða. Eldsneytisverð lækkaði um 3% í mars og verð á matvælum lækkaði um 0,1%. Skýrist lækkun matarliðar vísitölunnar einkum á lækkandi verði á mjólkurvörum og kjöti.
Tóbak hækkaði um 11% í mars og verð á nýjum ökutækjum hækkaði um 0,6%.
Hins vegar lækkaði verð á flugfargjöldum, fatnaði og hótelherbergjum.
Óttast ýmsir hagfræðingar að verðhjöðnum blasi við áfram sem gerir það að verkum að fyrirtæki eiga mun erfiðara með að skila hagnaði og greiða skuldir sínar. Talið er að fyrirtæki muni bjóða afslætti af vörum sínum í auknu mæli á sama tíma og atvinnuleysi eykst.