Þau fyrirtæki í Danmörku sem hafa laðað erlenda sérfræðinga til starfa þar í landi hafa staðið sig betur en þau fyrirtæki sem treysta einvörðungu á innlenda starfskrafta. Þetta er niðurstaða rannsóknar á afkomu danskra fyrirtækja á tímabilinu frá 1999 til 2005, samkvæmt frétt Polotiken.
Segir í fréttinni að framleiðni þeirra dönsku fyrirtækja sem hafi á að skipa samblandi af dönskum og erlendum sérfræðingum hafi að jafnaði verið um 7% meiri en þeirra fyrirtækja sem hafi ekki erlenda sérfræðinga innan sinna raða, þegar um að ræða samanburðarhæf fyrirtæki. Hér er að allega um að ræða fyrirtæki á sviði heilbrigðismála, tæknifyrirtæki og ráðgjafarfyrirtæki. Þá kemur fram að á árinu 2005 hafi um fimm þúsund erlendir sérfræðingar starfað hjá dönskum fyrirtækjum.
Skýringin á betri árangri fyrirtækja með erlenda sérfræðinga er sögð vera sú, að þeir hafi komið með nýja þekkingu og nýjar aðferðir inn í danskt atvinnulíf, að mati Jakob Roland Munch, prófessors við Kaupmannahafnarháskóla, en hann var einn þeirra sem rannsakaði þessi mál. Þá segir hann einnig að með erlendum sérfræðingum hafi fyrirtækin komist á sambönd við erlend fyrirtæki sem hafi í mörgum tilvikum skilað sér til fyrirtækjanna.