Ákveðið hefur verið að fresta fyrirhugaðri sölu á Actavis. Ástæðan er dræmar viðtökur hugsanlegra kaupenda þar sem uppsett verð upp á 5 milljarða evra, jafnvirði um 840 milljarða íslenskra króna, þykir of hátt, að því er segir í frétt Bloomberg-fréttastofunnar.
Actavis er í eigu Novators, fjárfestingarfélags Björgólfs Thors Björgólfssonar. Frá því var greint í febrúarmánuði síðastliðnum að Actavis væri til sölu. Þá kom fram að vonast væri eftir því að allt að sex milljarðar evra fáist fyrir samheitalyfjafyrirtækið.
Segir í frétt Bloomberg að hugsanlega verði aftur reynt að selja Actavis síðar á árinu, þegar aðstæður á fjármálamörkuðum hafa lagast. Þá kemur fram að Björgólfur Thor þurfi um 5 milljarða evra fyrir félagið, til að geta staðið skil á skuldum vegna þess.
Megin vandamálið eru skuldirnar, segir Leslie Itgen, greinandi hjá Bankhaus Lampe bankanum í Frankfúrt í samtali við Bloomberg. Hins vegar segir hann fyrirtækið vera gott.
Í frétt Bloomberg kemur fram að lyfjafyrirtækin Teva, Sanofi og Watson þyki hugsanlega hafa áhuga á kaupum á Actavis.