Starfsfólk flugfélagsins Cathay Pacific verður sent í launalaust leyfi og flugferðum flugfélagsins, sem er með höfuðstöðvar í Hong Kong, fækkað. Alls starfa 17 þúsund manns hjá Cathay Pacific en afkoma félagsins versnaði á fyrsta ársfjórðungi.
Tap Cathay Pacific nam rúmum milljarði Bandaríkjadala á síðasta ári og er þetta í fyrsta skipti sem félagið er rekið með tapi í meira en áratug. Skýrist tapið einkum af slæmu efnahagsástandi og óhagstæðra framvirkra samninga á eldsneyti.
„Starfsfólk okkar er beðið um að færa fórnir sem nauðsynlegar eru til þess að fyrirtækið komist í gegnum þessa erfiðleika," segir Tony Tyler forstjóri Cathay Pacific. Hann segir að allir starfsmenn verði að taka á sig launalaust leyfi.
Cathay Pacific er eitt stærsta flugfélag Asíu en starfsfólki er gert að taka allt að fjögurra vikna launalaust leyfi á næstu tólf mánuðum. Meðal aðgerða sem félagið grípur til er að afboða 17 ferðir til Lundúna í maí og annað eins í júní. Eins verður hætt að fljúga tvisvar á dag til Parísar frá og með september og einungis flogið einu sinni á dag. Jafnframt verður dregið úr framboði á flugi félagsins til Frankfurt, Sydney, Singapúr, Bangkok, Seul, Taipei, Tókýó, Mumbai og Dubai.