West Ham ekki selt næstu 3 ár

Gianfranco Zola.
Gianfranco Zola. Reuters

Fullyrt er í breska blaðinu Daily Telegraph, að ný samsteypa lánardrottna enska knattspyrnufélagsins West Ham, sem er að yfirtaka félagið, hafi heitið því að félagið verði ekki selt á næstu þremur árum og að það fái að starfa án afskipta bankanna.

Straumur-Burðaráss, sem nú er undir stjórn skilanefndar eftir að íslenska Fjármálaeftirlitið greip inn í reksturinn, verður stærsti eigandinn með 75% hlut en bankinn er einnig stærsti kröfuhafinn í félagið.  Blaðið segir, að endanlegt samkomulag um málið gæti náðst innan þriggja vikna og þá muni Björgólfur Guðmundsson, aðaleigandi West Ham og stjórnarformaður, víkja til hliðar. Hann muni ekki fá neitt greitt en hugsanlega fá hlut af söluverði félagsins takist að selja það.

Telegraph segir, að Straumur hafi í raun rekið West Ham síðustu 18 mánuði vegna fjárhagserfiðleika Björgólfs. Bankinn muni stofna eignarhaldsfélag og skipa stjórnarformann, hugsanlega einn af starfsmönnum bankans. 

Reynt hefur verið að selja West Ham að undanförnu en engin formleg tilboð hafa borist. Straumur hafi nú heitið því að félaginu verði reynt að starfa áfram enda ljóst, að með sölu nú muni ekki fást nægilegt fé upp í kröfur á móðurfélag West Ham. Því sé helsta vonin, að leyfa Gianfranco Zola, knattspyrnustjóra West Ham, og Scott Duxbury, forstjóra, að byggja áfram upp liðið og bíða af sér fjármálastorminn.

Þannig hafi Straumur lýst því yfir að bankinn muni reyna að afla 5 milljóna punda sem félagið þarf á halda og einnig 1,5 milljóna punda sem félagið hefur þegar varið til kaupa á landi þar sem nýtt þjálfunarsvæði á að rísa í Romford í Essex.

Straumur fullyrði, að bankinn muni ekki selja eignir frá West Ham og hafi einnig fallist á að þeir Zola og Duxbury fái að verja því fé, sem þeir afla með leikmannasölu, til að kaupa nýja leikmenn.  Annað fé mun koma úr rekstri félagsins en velta þess er áætluð 100 milljónir punda. 

Zola er sagður vita vel hvernig mál standi og sé reiðubúinn að gera nýjan 4 ára samning en hann gerði árs samning á síðasta ári þegar hann tók við af  Alan Curbishley. Margir af helstu leikmönnum West Ham eru einnig sagðir hafa samþykkt að gera nýja samninga. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK