Norskur bankamaður, sem stýrði Glitni í Noregi og síðar BNbank á árunum 2007 og 2008 en lét af störfum í byrjun þessa árs. Hann fékk samtals 14,3 milljónir norskra króna, jafnvirði rúmlega 270 milljóna íslenskra króna í starfslokagreiðslu og þykir Norðmönnum þetta vel útilátið í ljósi þess að samanlagður starfstími var um ár.
Tap á Glitni í Noregi nam 579 milljónum norskra króna á síðasta ári en bankinn fékk 5 milljarða norskra króna neyðarlán hjá tryggingasjóði norskra banka eftir að móðurfélagið á Íslandi féll. Í kjölfarið var bankinn seldur til bandalags 20 norskra sparisjóða og það var nafninu breytt í BNbank. Skömmu síðar lét Morten Bjørnsen af störfum en hann hafði stýrt Glitni og síðar BNbank í um eitt ár.
Að sögn blaðsins Dagens Næringsliv fékk Bjørnsen 14,3 milljónir norskra króna greiddar fyrir störf sín þegar hann hætti. 5,6 milljónir af því voru eftirlaun, 2,9 milljónir voru launaauki fyrir árið sem hann vann og að auki fékk hann 5 milljónir í bónusa og aðrar greiðslur.
„Þessar greiðslur eru allt of háar. Við viljum ekki reka banka með þessum hætti," hefur blaðið eftir Kjell Fordal, varaformanni stjórnar BNbank og segir að svona samningar verði ekki gerðir aftur. Bjørnsen bendir hins vegar á, að um sé að ræða greiðslur fyrir tvö ár.