„Margir blinduðust af sjálfshólinu"

Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins
Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins mbl.is/Sverrir

Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins segir að mörg mistök hafi verið gerð og margir blindast af sjálfshólinu og sjálfsdýrkun góðærisins. Rúm 5-6 ár séu síðan íslenskir fjárfestar beindu sjónum sínum að kaupum á lélegum fyrirtækjum í útlöndum. Útrásin hafi hafist fyrir alvöru á því að góður rekstur var keyptur en síðan hafi runnið æði á Íslendinga. Þetta kom fram í máli Þórs á aðalfundi SA sem nú stendur yfir.

Enginn var maður með mönnum nema fyrirtækið yxi um tugi prósenta á ári

„Endurmat er nauðsynlegt þegar íslenskt atvinnulíf og þjóðin öll verður fyrir efnahagsáfalli. Í því samhengi biðst atvinnulífið ekki undan gagnrýni enda er mikilvægt að gagnrýna græðgi og óhóf þar sem slíkt hefur ráðið ferðinni.    Við þurfum að passa okkur betur á þeirri hjarðhegðun sem verður oft til hérlendis eins og annars staðar.   Hún var sannarlega á ferðinni í viðskiptalífinu. Það var enginn maður með mönnum nema fyrirtækið yxi um tugi prósenta á ári. Allir töluðu um EBITA eins og  um nána frænku og rómantíkin í kringum myntkörfulánin mátti helst líkja við lautarferð heillar þjóðar. Skuldirnar voru hins vegar lítið ræddar enda voru þær til skamms tíma!  Innlendu og erlendu eignir Íslendinga hækkuðu mikið í verði í viðskiptum milli íslenskra aðila. Í landinu virtist á tímabili meiri þekking vera á því hvað gjaldmiðlaskiptasamningar væru en hvað uppsjávarfiskur væri. Það segir margt um ástandið.

 Við fylgdumst með hvernig ársreikningar bólgnuðu á endurmati og klókindum og hvernig viðhorf til hefðbundins rekstrar á Íslandi breyttust – íslenski markaðurinn þótti hvorki fugl né fiskur.  Einn kollegi minn hreykti sér af 12 milljón króna árlegum sparnaði  í rekstri fyrirtækisins með bættum vinnuaðferðum við gamlan félaga sem stjórnaði fyrirtæki sem hafði breytt sér úr hefðbundnu rekstrarfyrirtæki - í rekstrar- og fjárfestingarfyrirtæki. Sá staðhæfði á móti að fjárfestingahagnaðurinn  deginum áður hjá honum hefði verið tífaldur sá sparnaður. Rekstrarmenn urðu afar smáir og næstum tabú að vera bara á Íslandi.

 Það eru rúmlega 5-6 ár síðan íslenskir fjárfestar beindu sjónum sínum að kaupum á lélegum fyrirtækjum í útlöndum.  Útrásin hafði hafist fyrir alvöru á því að góður rekstur var keyptur en síðan rann æði á Íslendinga. Sjálfstraustið var slíkt að allt átti að verða að gulli í höndunum á íslenskum athafnamönnum.  Jafnvel fyrirtæki sem höfðu aldrei skilað hagnaði og þóttu verðlítil eða verðlaus erlendis voru keypt og smám saman urðu þau að gulli í íslensku bókhaldi. Í þessum efnum skipti reksturinn úti rétt eins og hér heima litlu máli í hinni svokölluðu stóru mynd samruna og veröld hinna stóru talna.  Þegar á reyndi var það samt grunnreksturinn bæði hér og úti sem skipti öllu máli. 

 Við Íslendingar erum fljótir að tileinka okkur hlutina og við vorum fljótir að tileinka okkur slæma siði um leið og þeir birtust í alþjóðlegu fjármálalífi. Lærum af því," segir Þór.

Háir vextir lama hundruð fyrirtækja í hverjum mánuði

Hann segir að það þurfi að lækka vexti strax á Íslandi. Það sjái hver heilvita maður sem líti aftur síðustu ár að vaxtastefnan hérlendis  hefur verið sem snara um háls atvinnulífsins.  

„Háir vextir hérlendis  lama  hundruð fyrirtækja í hverjum mánuði og koma þeim úr umferð.  Munum að hávaxtastefnan er heimatilbúin og ein stærsta einstaka ástæðan fyrir því hversu illa er komið fyrir landinu okkar.

 Við þurfum að  koma bönkunum af stað að nýju. Vörumst að festa í sessi ríkisrekstur bankakerfisins. Slíkir bankar munu ekki með góðu móti geta þjónað viðskiptavinum sínum og án aðkomu erlendra aðila mun aðgangur Íslands að erlendum fjármagnsmörkuðum verða takmarkaður.  Þrátt fyrir að margir hafi á orði að bankarnir hafi þjáðst af ákvörðunarfælni og í tísku sé að tala niður til bankastarfsmanna tel ég að mörgu leyti að starfsfólk bankanna hafi gert vel í mjög þröngri og erfiðri stöðu.  Við þurfum að hvetja þetta fólk til dáða en um leið að leggja allt kapp á að bankarnir fari sem fyrst úr ríkiseigu.

 Við þurfum að afnema gjaldeyrishöftin fljótt. Setning laga um gjaldeyrishöft aðfaranótt 29. nóvember 2008 voru mikil mistök og allt of viðamikil aðgerð. Með höftunum var sköpuð meiri vantrú en ella á að gengi krónunnar gæti styrkst. SA vöruðu við því að gjaldeyrishöftin myndu kalla á enn meiri höft sem hefur komið á daginn. Útilokað er að íslensk fjármálafyrirtæki og atvinnulífið almennt fái eðlilega lánafyrirgreiðslu hjá erlendum bönkum á meðan gjaldeyrishöft eru við lýði. Sú staðreynd felur einfaldlega í sér meiri kröfur á niðurgreiðslu skulda og viðskiptaafgang en efnahagslífið og þjóðarbúið rís undir. Langvarandi gjaldeyrishöft  fela því í sér að yfirvofandi hættu á nýrri fjármálakreppu."

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK