Segja mikinn niðurskurð nauðsynlegan í fiskveiðiflota ESB

Evrópskir sjómenn hafa oft mótmælt niðurskurði á veiðikvótum en fiskistofnarnir …
Evrópskir sjómenn hafa oft mótmælt niðurskurði á veiðikvótum en fiskistofnarnir minnka stöðugt.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir, að þörf sé á verulegum niðurskurði í fiskveiðiflota bandalagsins. Joe Borg, sem fer með sjávarútvegsmál í framkvæmdastjórninni, sagði í dag að níu af hverjum 10 fiskistofnum í lögsögu bandalagsins væru ofveiddir. Framkvæmdastjórnin skoðar hvort taka eigi upp frjálst framsal á veiðikvótum að íslenskri fyrirmynd.

Í skýrslu, sem Borg lagði fram í dag, kemur fram að hætta sé á að 30% af fiskistofnunum séu nýttir umfram viðkomugetu. Ekki kom fram í máli Borgs hve mikið þyrfti að skerða veiðikvóta en hann sagði að þorskur, lýsingur og bláugga-túnfiskur væru mestri hættu.

Borg sagði, að veiðifloti Evrópusambandsins væri allt of stór og veiðigetan væri mun meiri en stofnarnir stæðu undir.  

Í skýrslunni segir, að núgildandi fiskveiðistefna, sem síðast var breytt árið 2002, hafi ekki reynst nægilega vel. Framkvæmdastjórnin leggur m.a. til að aðildarríki ESB skoði, hvort taka eigi upp frjálst framsal veiðikvóta, líkt og gert hefur verið á Íslandi, til að stuðla að sjálfbærum veiðum.

Samkvæmt núgildandi kerfi togast aðildarríki ESB á í lok hvers árs um hvernig skipta eigi heildarkvótanum á milli sín og landskvótunum er síðan skipt milli útgerða í hverju landi.

Nú hallast framkvæmdastjórnin hins vegar að því að taka eigi upp framseljanlega veiðikvóta þar sem veiðikvótum er úthlutað til útgerða og síðan sé hægt að eiga viðskipti með kvótann á frjálsum markaði. Kerfi af þessu tagi eru í gildi í Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Noregi auk Íslands.

„Það er tími til kominn, að henda sjávarútvegsstefnunni í heild og horfa frekar til heildstæðrar sjávarútvegsstefnu, sem Ísland og Noregur hafa framfylgt með góðum árangri, hefur Daily Telegraph í dag eftir Nigel Farage, leiðtoga breska Sjálfstæðisflokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK