Tap Skipta, móðurfélags Símans, nam 6,4 milljörðum króna á síðasta ári en hagnaður félagsins nam 3,1 milljarði króna árið 2007. Afkoma félagsins hefur því versnað um 9,5 milljarða króna á milli ára. Sala Skipta jókst um 19% á milli ára, nam 39 milljörðum samanborið við 32,7 milljarða árið 2007.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 9 milljörðum króna samanborið við 9,5 milljarða árið áður. EBITDA hlutfallið var 23%. Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 10,1 milljarði króna samanborið við 9,0 milljarða árið áður. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 8,4 milljörðum króna.
Segir í tilkynningu að tap ársins skýrist einkum af gengisþróun íslensku krónunnar á tímabilinu og virðisrýrnun óefnislegra eigna.
Fjármagnsgjöld voru 9,5 milljarðar króna en þar af nam gengistap 3,2 milljörðum króna. 32% af tekjum samstæðunnar koma af erlendri starfsemi félagsins.<p>Vaxtaberandi skuldir að frádregnum innistæðum (nettó vaxtaberandi skuldir) námu 51,1 milljarði um áramót en voru 50,0 milljarðar árið áður. Eiginfjárhlutfall Skipta hf. er 28%.
Skipti hf. er eignarhaldsfélag um rekstur fyrirtækja á sviði fjarskipta, upplýsingatækni og afþreyingar. Innan samstæðunnar eru meðal annars Síminn, Míla, Já, Skjárinn, Sensa, Tæknivörur, On-Waves,Radiomiðun og Staki. Erlend dótturfélög eru fjarskiptafélögin Aerofone í Bretlandi og Síminn Danmark í Danmörku, og upplýsingatæknifyrirtækið Sirius IT sem er með starfsemi í Noregi, í Svíþjóð og Danmörku.