Ríkisskattstjóri ætlar að leggja aukna áherslu á skatteftirlit. Í Morgunblaðinu í gær auglýsir embættið eftir „öflugum og jákvæðum einstaklingi til starfa í eftirlitsdeild“.
„Þetta er í samræmi við ákvörðun ríkisskattstjóra að leggja áherslu á aukið eftirlit. Það endurspeglar niðurstöðu samráðshóps fjármálaráðuneytisins, skattrannsóknarstjóra og skattstjóra að leggja áherslu á eftirlit í tengslum við hrun bankanna og í aðdraganda þess,“ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri.
Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu segir meðal annars: „Í viðræðum fjármálaráðuneytisins við skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra hefur komið fram að afar brýnt sé að hraða rannsókn hugsanlegra skattalagabrota í tengslum við fall bankanna og í starfsemi þeirra í aðdraganda fallsins hvort sem er hjá eigendum, stjórnendum eða starfsmönnum bankanna og félaga sem þeim tengjast.
Í ljósi þess telja þessir aðilar æskilegt að aukinn þungi verði lagður í þetta verkefni hjá stofnunum skattsins og eru sammála um að gert verði sérstakt átak í þessum efnum í samvinnu þessara embætta. Verður skipaður starfshópur sérfræðinga þessara stofnana og annarra stofnana skattkerfisins til að vinna sérstaklega að þessum verkefnum. Starfshópurinn mun starfa innan embættis skattrannsóknarstjóra og honum stjórnað af manni með mikla reynslu af skatteftirliti og endurskoðun.
Í framhaldi af þessu hefur því verið beint til skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra að hrinda framangreindu af stað og setja á laggirnar þann starfshóp sem rætt hefur verið um við embættin og að í honum starfi færustu sérfræðingar embættanna á þessu sviði.“