Landsframleiðsla í Bretlandi dróst saman um 1,9% milli síðasta ársfjórðungs síðasta árs og fyrsta ársfjórðungs 2009, samkvæmt bráðabirgðatölum sem breska hagstofan hefur birt. Er það mesti samdráttur á ársfjórðungi frá fyrstu dögum ríkisstjórnar Margrétar Thatcher fyrir þrjátíu árum síðan.
Á þriðja ársfjórðungi 1979 dróst landsframleiðsla saman um 2,4% og hefur samdráttur milli ársfjórðunga ekki verið svo mikill síðan. Frá október til desember 2008 var samdrátturinn 1,6%. Er þetta í fyrsta skipti frá 1948 sem landsframleiðslan dregst saman um meira en prósent milli ársfjórðunga.