Sekkur Bretland enn dýpra en Ísland?

David Stevenson segir líf Íslendinga undir stjórn AGS enga himnasælu.
David Stevenson segir líf Íslendinga undir stjórn AGS enga himnasælu. Guðmundur Rúnar

Mun Bretland eiga þann eina kost að feta í fótspor Íslands og biðja Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um hjálp? Staða landanna er mjög áþekk að mati David Stevenson, blaðamanns breska blaðsins MoneyWeek sem skrifar um það pistil í dag að Ísland sé eins og kennslustund í gjaldþroti fyrir Breta. 

„Bæði Íslendingar og Bretar reyndu að gera landið sitt að vogunarsjóði með því að láta bankana lána miklu meira í erlendri mynt en ársframleiðsla landsins stendur undir. Bæði löndin voru í kjölfarið þvinguð til að punga út búnti af peningum skattgreiðenda fyrir lánveitendurna þegar lánin fóru í hnút,“ nefnir Stevenson til samanburðar. Ennfremur sé hætt við því að breska pundið hrynji sömu leið og íslenska krónan gerði.

„En síðan AGS kom til bjargar hefur Ísland horfið svolítið úr sviðsljósinu. Nú nokkrum mánuðum síðar spyr maður sig hvernig lífið hefur verið undir „björgunaráætlun“ AGS með fjárhagslegri ráðvendni og niðurskurði ríkisútgjalda?“ segir Stevenson og veltir því fyrir sér hvort Íslendingar séu sáttir.

„Því fer fjarri,“ segir hann og nefnir til sögunnar mótmæli og götuóeirðir. „Það kemur líka ekki á óvart þegar maður skoðar sumar „lagfæringarnar“ sem Íslendingar hafa þurft að sætta sig við,“ segir Stevenson og fullyrðir að landið sé enn á ystu nöf, gildi krónunnar hafi helmingast gagnvart öðrum gjaldmiðlum, verðlag hafi hækkað um 15% en launin ekki í samræmi við það. „Þið sjáið hvað ég er að fara, þetta er efnahagsleg hryllingssaga,“ segir Stevenson eftir að hafa talið upp fleiri atriði sem eru orðin Íslendingum vel kunn eins og vaxandi atvinnuleysi, 90% hrun í bílasölu, tapað sparifé og hækkun erlendra lána.

Bretar geta ekki flúið fjármálageirann

Þrátt fyrir allt segir Stevenson að þetta þýði þó ekki endalok vitsmunalegs lífs á Íslandi, lífið haldi áfram og ýmis merki séu um að brátt muni rofa til.  En þýðir það þá að það sé ekki svo slæmt eftir allt saman að banka upp á hjá AGS? Stevenson er ekki sannfærður. Hann segir Íslendinga þó geta hallað sér að grunnstoðunum, ferðamannaiðnaði, fiski og endurnýjanlegri orku. Málið horfi öðru vísi við Bretum.

„Hagkerfið okkar er svo þéttofið fjármálageiranum að við getum ekki snúið baki við honum.  Svo ef að Bretar neyðast á endanum til þess að snúa sér til AGS þá verður höggið enn harðara en á Íslandi.“ Í millitíðinni bendir hann Bretum á að á meðan þeir hafi ekki efni á að ferðast lengri geti þeir allavega skroppið að skoða íslenska hveri í sumarfríinu. 

Greinin MoneyWeek í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK