Þeir sem áttu verðlaus hlutabréf í bönkunum um síðustu áramót geta ekki fært tapið á móti söluhagnaði hlutabréfa í skattframtali. Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir það ekki eina vandamál skattsins vegna bankahrunsins.
Pétur á sæti í efnahags- og skattanefnd Alþingis og þar hefur þetta mál verið rætt. Hann segir sem dæmi þá hafi fólk, sem erfði bréf í bönkunum á síðasta ári, þurft að greiða af þeim erfðaskatt. Er þá miðað við verðmæti bréfanna á dánardegi viðkomandi einstaklings. Hafi fólk fengið bréfin í arf í september þurfi að greiða af þeim erfðaskatt þótt þau voru verðlaus í lok árs.
Þegar fólk var að klára skattskýrslu sína fyrir síðasta ár gat það ekki fært tap á hlutabréfaeign í bönkunum um síðustu áramót á móti hugsanlegum söluhagnaði af hlutabréfum sem myndaðist á árinu. Í raun er ekki hægt að líta á hlutabréfaeign í bönkunum, þrátt fyrir að eignin sé verðlaus í dag, sem raunverulegt tap. Það hefði einungis verið hægt ef bréfin voru seld, til dæmis fyrir eina krónu, rétt áður en bankarnir féllu og viðskipti með bréfin voru stöðvuð.
„Það koma upp alls konar vandamál núna vegna þess að bankarnir eru ekki gjaldþrota,“ segir Pétur. Það sé í raun ekki búið að raungera tapið. Þetta sé eitthvað sem þurfi að leysa og verði að öllum líkindum skoðað þegar þing kemur aftur saman.
Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, segir mikið af fyrirspurnum hafa komið um hvernig fara eigi með hlutabréf í fyrirtækjum þar sem hlutafé hafi í raun verið allt fært niður og er verðlaust.