Hrunið í spænsku efnahagslífi hefur vakið áhyggjur um alla Evrópu. Spænska efnahagsundrinu er lokið. Í lok liðinnar viku var tilkynnt að atvinnuleysi á Spáni hefði farið upp í 17,36% á fyrsta fjórðungi þessa árs. Á síðasta ársfjórðungi 2008 mældist atvinnuleysið 13,91%. Verst er ástandið hjá yngstu kynslóðinni, atvinnuleysið fór í lok síðasta árs upp í 31,8% hjá fólki undir 25 ára aldri og er hvergi meira í ríkjum Evrópusambandsins.
Á einu ári hefur atvinnuleysið tvöfaldast. Aukningin þýðir að nú eru yfir fjórar milljónir Spánverja án atvinnu. Þetta er mesta atvinnuleysið í ríkjum Evrópusambandsins og gangi spár spænska seðlabankans eftir mun það enn aukast á þessu ári. Að meðaltali er 7,9% atvinnuleysi í ríkjum Evrópusambandsins.
Ástandið í atvinnulífinu þýðir að nú blasir við verðhjöðnun á Spáni. Svo hefur dregið úr pöntunum að framleiðendur eru byrjaðir að lækka verð. Í mars lækkaði verðið nánast hvert sem litið var, allt frá veitingastöðum og tískuverslunum til apóteka og stórmarkaða. Þegar verðlækkanirnar duga ekki til að lífga eftirspurnina við neyðast fyrirtækin enn til að segja upp fólki og óttast hagfræðingar að þetta geti leitt til vítahrings verðhjöðnunar.
Verðhjöðnun setti mark sitt á kreppuna miklu á fjórða áratugnum og olli Japönum sömuleiðis miklum vandræðum á tíunda áratug tuttugustu aldar sem kallaður hefur verið glataði áratugurinn.
Í mars mældist í fyrsta skipti verðhjöðnun á Spáni frá því að byrjað var að mæla verðbólgu árið 1961. Um leið varð Spánn fyrsta evruríkið til að mæla verðhjöðnun. Reyndar nam hjöðnunin aðeins 0,1%, en þó finnst mönnum nóg um og tölur víða um Evrópu benda til þess að vandinn sé víðtækari. Verðlækkanir hafa einnig átt sér stað í Þýskalandi, Lúxemborg, Portúgal og Írlandi svo eitthvað sé nefnt.
Nú hefur orðið hrun á húsnæðismarkaði og draugahverfi eru birtingarmynd byggingabólunnar. Talið er að ein milljón nýrra íbúða og húsa standi auð. Hagsmunasamtök 14 stærstu verktakafyrirtækjanna sögðu að þau hefðu ekki byrjað á einni einastu byggingu í desember.
29. mars ákváðu stjórnvöld að koma litlum sparisjóði, Caja Castilla La Mancha, til bjargar og er talið að fleiri sparisjóðir muni fylgja.
Sparisjóðirnir lánuðu fyrirtækjum og einstaklingum sem stóru bankarnir litu ekki við. Spænskir verktakar fengu 318 milljarða evra lánaða, helminginn hjá sparisjóðunum.