Vísindamenn og náttúruverndarsamtök hvetja til þess, að þriðjungi hafsvæðanna verði lokað fyrir fiskveiðum í að minnsta kosti 20 ár. Í nýrri skýrslu Evrópusambandsins kom fram á 88% fiskistofna í lögsögu bandalagsins væru ofveidd og 30% stofna séu í útrýmingarhættu.
Callum Roberts, prófessor í sjávarlíffræði við háskólann í York, segir við blaðið Observer, að hann hafi yfirfarið 100 vísindarannsóknir og skýrslur, þar sem fjallað er um málið og þær bendi allar í svipaða átt, þá að vernda eigi 20-40% af úthöfunum. Náttúruverndarsamtök eru sögð styðja þessa hugmynd.
Evrópusambandið leggur m.a. til að stórlega verði dregið úr fiskveiðum og fiskveiðiflotinn verði skorinn niður. Roberts segist ekki telja að þær aðgerðir nægi ef ekki verði gripið til svæðafriðunar. Hann bendir m.a. á að slíkt hafi gefið árangur við Ísland og Kanada.
Talsmenn breskra útvegsmanna lýsa hins vegar efasemdum um svæðafriðanir. Það muni leiða einfaldlega til þess, að veiðarnar flytjist til ófriðaðra svæða.
Nú eru um 4000 skilgreind fisksverndasvæði sem ná yfir samtals um 0,8% af öllu hafsvæði jarðar.