Helstu hlutabréfamarkaðir lækkuðu í morgun í kjölfar svínaflensunnar sem þegar hafa yfir eitt hundrað látist vegna hennar í Mexíkó. Hækkun á hlutabréfum lyfjafyrirtækja dugðu ekki til þess að bjarga hlutabréfavísitölum í Asíu og Evrópu frá rauðum tölum.
Meðal annars lækkaði verð flugfélaga mikið þar sem fjárfestar óttast að stjórnvöld muni herða reglur um ferðalög milli landa. Telja flestir líklegt að hlutabréf muni lækka mikið á Wall Street þegar viðskipti hefjast þar um hádegi í dag að íslenskum tíma.
Í Lundúnum hefur FTSE vísitalan lækkað um 1,13%, DAX í Frankfurt 1,92% og CAC í París um 1,64%. Í Madrid hefur vísitalan lækkað um 2,18%.
Kínversk hlutabréf lækkuðu um 1,77% og voru það matvælafyrirtæki sem leiddu lækkanir. Í Suður-Kóreu nam lækkunin 1,05% en í Tókýó og Sydney varð lítil breyting á helstu vísitölum.
Eins og áður sagði hafa hlutabréf flugfélaga lækkað í morgun. British Airways hefur lækkað um 8% og Qantas Cathay Pacific lækkuðu einnig mikið í morgun. Ferðaþjónustufyrirtæki hafa einnig lækkað í verði. Til að mynda hefur Thomas Cook lækkað um 7.9%.