Apple á Íslandi hefur samið við Skýrr um víðtæka rekstrarþjónustu á sviði upplýsingatækni. Skýrr hýsir eftirleiðis lykilkerfi Apple á Íslandi, meðal annars fjárhagskerfið Microsoft Dynamics NAV og vakta- og viðverukerfið Bakvörð.
Í tilkynningu frá Skýrr segir að hýsing kerfanna verði í kerfisleiguhögun hjá fyrirtækinu. Þannig fái starfsfólk Apple á Íslandi aðgang að eigin vinnuumhverfi, gögnum og hugbúnaði gegnum öruggt umhverfi, sem sé hýst, afritað og vaktað á miðlægum búnaði hjá Skýrr allan sólarhringinn.
„Við vorum að leita að traustum og öflugum hýsingaraðila fyrir okkar lykilkerfi í rekstri, en vildum á sama tíma gæta ýtrustu hagkvæmni. Skýrr hefur áratugareynslu af hýsingu og kerfisleigu og uppfyllir strangar kröfur um afköst, áreiðanleika og öryggi. Við höfum miklar væntingar til þessa nýja samstarfsaðila okkar og teljum að við séum þar í góðum höndum,“ er haft eftir Bjarna Ákasyni, forstjóra Apple á Íslandi, í tilkynningu.
„Apple á Íslandi er sölu- og þjónustuaðili eins verðmætasta vörumerkis veraldar og er í samræmi við það afskaplega framsækinn notandi upplýsingatækni. Fyrirtækið gerir miklar kröfur til samstarfsaðila sinna og við lítum á það sem skemmtilega áskorun og í raun tilhlökkunarefni að veita þeim fyrsta flokks þjónustu,“ er haft eftir Þórólfi Árnasyni, forstjóra Skýrr, í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.