Gengi krónu hefur styrkst töluvert gagnvart evru á erlendum markaði undanfarna daga og hljóða tilboð í Reuters-tilboðakerfinu nú upp á u.þ.b. 220 kr. fyrir evruna. Er gengið erlendis nú svipað og var fyrir sex vikum síðan. Á sama tíma hefur gengi evru hins vegar hækkað um ríflega 14% gagnvart krónu á innlendum millibankamarkaði.
Munur á innlendu og erlendu gengi krónu gagnvart evru hefur því minnkað verulega undanfarið. Evran er nú 28% dýrari á erlendum markaði en hinum innlenda, en ef marka má Reuters-tilboðakerfið varð þessi munur um og yfir 90% fyrir mánuði síðan. Hefur munur á innlenda og erlenda genginu ekki verið minni frá síðustu vikum janúarmánaðar.
Í Morgunkorni Íslandsbanka kemur fram að ekki sé gott að segja hvað veldur þessari ólíku þróun krónu á erlendum og innlendum markaði.
„Ljóst er þó að öðru jöfnu verður hvati til þess að fara í kring um gjaldeyrishöft meiri eftir því sem færi gefst á meiri hagnaði. Ein hugsanleg skýring er að útflæði vegna vaxtagreiðslna frá miðjum marsmánuði hafi aukið eftirspurn eftir krónum erlendis, enda geta erlendir aðilar sem hafa hug á að halda stöðu sinni í krónum nýtt þær evrur sem þeir fá á innlendum markaði fyrir vaxtagreiðslur sínar til þess að kaupa krónueignir af öðrum útlendingum sem meira liggur á að losna við slíkar eignir.
Einnig kann minnkandi áhættufælni erlendis, sem endurspeglast til að mynda í lækkandi skuldatryggingarálagi, að hafa minnkað áhuga erlendra fjárfesta á að selja krónueignir sínar á afar lágu verði. Í þriðja lagi er ekki hægt að útiloka að gjaldeyrir leiti í auknum mæli fram hjá höftunum, en minni einangrun milli markaða ætti alla jafna að draga úr verðmun milli þeirra.
Haldi þessi þróun áfram ætti það að auðvelda afléttingu gjaldeyrishafta, þar sem gengi krónu erlendis gefur vísbendingu um hvaða gengi óþolinmóðir erlendir fjárfestar eru tilbúnir að sætta sig við til að losa sig úr krónustöðum sínum.
Nýleg ummæli Seðlabankastjóra skipta einnig máli í þessu tilliti, en hann sagði í viðtali við Reuters-fréttastofuna á sunnudag að unnið væri að áætlun um að losa hluta erlendra fjárfesta út úr krónueignum sínum fyrir mitt ár. Það, ásamt því að endahnútur verði bundinn á endurskipulagningu bankakerfisins og áhættufælni á alþjóðamörkuðum réni frekar, eru meðal helstu áfanga á þeirri leið að endurfleyta krónunni að fullu og aflétta gjaldeyrishöftum," samkvæmt Morgunkorni.