Atvinnurekendur aldrei svartsýnni

mbl.is

Stjórnendur 500 stærstu fyrirtækja landsins eru svartsýnir á horfur næstu mánuði og eiga almennt ekki von á að breyting verði til batnaðar á næstu sex mánuðum en ívið meiri bjartsýni kemur fram þegar horft er ár fram í tímann. Öll einkenni eftirspurnar- og verðbólguþrýstings eru horfin úr hagkerfinu. Þetta er niðurstaða könnunar sem gerð var í marsmánuði og birt er á vef Samtaka atvinnulífsins.

Stjórnendur hjá um 95% fyrirtækjanna telja núverandi aðstæður í efnahagslífinu vera slæmar (37%) eða mjög slæmar (58%), um 5% telja þær hvorki góðar né slæmar, en ekkert þeirra fyrirtækja sem svöruðu könnuninni telja aðstæður hins vegar vera góðar. Þessi niðurstaða er ámóta afleit og fram kom í sambærilegri könnun í desember en mun verri en fram hefur komið í fyrri reglubundnum könnunum um sama efni eða allt frá árinu 2002.

  Þegar horft er sex mánuði fram í tímann búast um 29% fyrirtækjanna við að aðstæður verði þá nokkuð betri, um 33% telja að þær verði verri og um 38% búast þá við að aðstæður verði óbreyttar frá því sem nú er. Aukinnar bjartsýni gætir þegar horft er tólf mánuði fram í tímann, en þá býst meirihluti fyrirtækjanna eða 59% við að aðstæður verði betri, um 18% að þær verði verri en um 22% vænta óbreyttra aðstæðna.

 „Þegar niðurstöður könnunarinnar eru þannig virtar í sögulegu samhengi blasir við að mat stjórnenda á ríkjandi aðstæðum í efnahagslífinu hefur aldrei verið jafn slæmt og fram kemur í þessari könnun og í könnun í lok síðasta árs, en vísitala efnahagslífsins sýnir lágmarksstöðu bæði í desember 2008 og mars 2009," að því er fram kemur á vef SA.

Ekki ráðið í ný störf næstu sex mánuði

Nægt framboð vinnuafls var til staðar í nánast öllum þeim fyrirtækjum sem svöruðu könnuninni, en skortur á vinnuafli var einungis til staðar hjá um 3% þátttökufyrirtækja.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar er þess ekki að vænta að ráðið verði í mörg ný störf á næstu sex mánuðum en á hinn bóginn er búist við að verulega muni draga úr uppsögnum miðað við síðustu sex mánuði. Hjá um 64% fyrirtækja er búist við því að starfsmannafjöldi verði óbreyttur á næstu sex mánuðum, um 14% gera ráð fyrir að fjölga starfsfólki en 22% eiga von á fækkun.

„Kólnun á vinnumarkaði birtist einnig í gjörbreyttum væntingum um launaþróun. Hjá einungis um 9% þeirra fyrirtækja sem svara könnuninni er búist við að meðallaun á starfsmann muni hækka á næstu sex mánuðum, í flestum tilvikum eða um 60% er búist við að laun verði óbreytt, en hjá um 31% fyrirtækja er búist við að laun lækki. Í könnun fyrir ári síðan bjóst hins vegar um 59% fyrirtækja við því að laun myndu hækka á næstu sex mánuðum," samkvæmt vef SA. 

Flest fyrirtæki rekin undir hámarksafkastagetu

Yfirgnæfandi meirihluti atvinnufyrirtækja er nú rekin undir hámarksafkastagetu. Þá sýnir könnunin að 90% fyrirtækjanna búast við að þessar aðstæður vari næstu sex mánuði.

Innlend eftirspurn hefur sem kunnugt er dregist mjög hratt saman að undanförnu og í heild er ekki spáð mikilli breytingu þar á á næstu sex mánuðum. Helmingur þátttökufyrirtækja telja að eftirspurn verði óbreytt á næstu sex mánuðum, um 22% búast við að hún muni aukast nokkuð og um 27% búast við samdrætti í eftirspurn, samkvæmt niðurstöðu könnunarinnar sem Samtök atvinnulífsins hafa gert í samstarfi við fjármálaráðuneytið og Seðlabanka Íslands. Framkvæmd könnunarinnar er í höndum Capacent Gallup. Könnunin er gerð ársfjórðungslega.

 Lítil eftirspurn eftir íslenskum vörum erlendis

„Athygli vekur að þrátt fyrir veikt gengi krónunnar um þessar mundir ríkir lítil bjartsýni um þróun eftirspurnar eftir vöru og þjónustu á erlendum mörkuðum. Telja aðeins um 10% fyrirtækja í sjávarútvegi að eftirspurn á erlendum mörkuðum muni aukast á næstu sex mánuðum, um 40% búast við óbreyttri eftirspurn, en um 50% vænta samdráttar í eftirspurn. Í iðnaði og framleiðslu eru horfurnar skárri en þó ekki bjartar. Er þar ámóta stórt hlutfall fyrirtækja sem búast við aukinni erlendri eftirspurn (38%) og þeirra sem vænta samdráttar (40%), en röskur fimmtungur (22%) væntir ekki breytingar."

Spá að meðaltali 9,8% samdrætti í veltu

Spár fyrirtækjanna um breytingu á veltu milli áranna 2008 og 2009 eru svartsýnni en fram hefur komið í fyrri könnunum. Telja um 56% fyrirtækjanna að velta á árinu 2009 verði nokkuð minni (35%) eða miklu minni (21%) en á árinu 2008, um fjórðungur býst við óbreyttri veltu og einungis um 18% vænta aukningar. Engu minni samdrætti virðist spáð í útflutningsstarfsemi en í öðrum greinum, sbr. að um 71% fyrirtækja í sjávarútvegi búast við að velta verði nokkuð minni (57%) eða miklu minni (14%) á þessu ár en í fyrra.

Í heild spá fyrirtækin 9,8% lækkun á veltu milli ára. Ef gengið er út frá 12% meðalhækkun verðlags milli ára felst í þessu 19,5% samdráttur að raunvirði. Til samanburðar má geta þess að samkvæmt spá fjármálaráðuneytisins frá því í janúar er gert ráð fyrir tæplega 10% magnsamdrætti í landsframleiðslu á þessu ári. Þar er gengið út frá því að 1,6% raunvöxtur verði í samneyslu milli ári. Er því ljóst að gera má ráð fyrir að samdráttur í umsvifum einkafyrirtækja milli ára verði ennþá meiri en sem nemur minnkum landsframleiðslu. Reynist spá fyrirtækjanna um samdrátt í veltu þeirra nærri lagi, er ástæða til að óttast að samdráttur í landsframleiðslu á þessu ári verði ennþá meiri en opinberar spár gera ráð fyrir.

 Horfurnar lakastar í sjávarútvegi

Samkvæmt svörum í könnuninni virðist einsýnt að hagnaður fyrirtækja sem hlutfall af veltu verði minni á árinu 2009 en 2008, en tæpur helmingur (49%) fyrirtækjanna telja að svo verði, á móti því sem um 32% búast við meiri hagnaði, en óbreytts hagnaðar er vænst hjá um 19% fyrirtækjanna. Ekki kemur fram mikill munur á þessu mati eftir atvinnugreinum, en lakastar horfur eru þó í sjávarútvegi, þar sem um 75% fyrirtækja búast við minni (50%) eða miklu minni (25%) hagnaði á árinu 2009. Í engri atvinnugrein koma fram skýr merki um aukinn hagnað á árinu 2009.

Sjá nánar á vef Samtaka atvinnulífsins


mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK