Bandaríska bílafyrirtækið Chrysler hefur fengið ígildi greiðslustöðvunar og hafið samstarf við ítalska bílafyrirtækið Fiat, að sögn Baracks Obama Bandaríkjaforseta. Fullyrt er að gert sé ráð fyrir því að Fiat eignist smám saman meirihluta í Chrysler sem er þriðji stærsti bílaframleiðandi landsins
Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu er greiðslustöðvuninni lýst sem „stuttri gjaldþrotsmeðferð“ sem geti tekið 30-60 daga. Robert Nardelli, forstjóri Chrysler, kvaðst ætla að láta af störfum þegar endurskipulagningunni lyki.
Gert er ráð fyrir því að Chrysler fái 8 milljarða dollara, sem svarar tæpum 1.000 milljörðum króna, í ríkisaðstoð.