Handbært fé ríkissjóðs neikvætt um 4,9 milljarða

Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg
Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg Jim Smart

Handbært fé frá rekstri ríkissjóðs á fyrstu þremur mánuðum ársins var neikvætt um 4,9 milljarða króna, sem er 42,6 milljörðum lakari útkoma en á sama tímabili í fyrra. Tekjur reyndust um 6,4 milljörðum króna lægri en í fyrra á meðan að gjöldin hækka um 32,1 milljarð króna.

Innheimtar tekjur ríkissjóðs á fyrsta ársfjórðungi 2009 voru 122 ma.kr. sem er um 6 ma.kr. lægri tekjur en á sama tíma árið 2008. Áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir að innheimtar tekjur yrðu um 130 ma.kr. og er frávikið því um 8 ma.kr. Munar þar mest um lægri skatta á vöru og þjónustu en gert var ráð fyrir í áætluninni.

Skatttekjur og tryggingagjöld námu tæplega 107 ma.kr. og drógust saman um 10,9% að nafnvirði og um 26,1% að raunvirði miðað við hækkun almenns verðlags (VNV án húsnæðis). Þá jukust aðrar rekstrartekjur ríkissjóðs á fyrstu þremur mánuðum ársins frá sama tíma 2008 en þar munar mest um hærri vaxtatekjur.

Skattar á tekjur og hagnað námu tæplega 55 ma.kr. sem er 0,6% aukning að nafnvirði frá fyrsta ársfjórðungi 2008. Þar af nam tekjuskattur einstaklinga 23 ma.kr. (samdráttur um 1,3%), tekjuskattur lögaðila um 4 ma.kr. (samdráttur um 20,1%) og fjármagnstekjuskattur 28 ma.kr. (aukning um 6%). Innheimta eignarskatta var rúmlega milljarður króna og dróst saman um 39,8%, þar af námu stimpilgjöld um 0,9 ma.kr. og drógust þau saman um 51% frá fyrra ári.

Innheimta almennra veltuskatta dróst saman um 35,1%

Innheimta almennra veltuskatta nam um 39 ma.kr. á fyrsta fjórðungi ársins og dróst saman um 11 ma.kr. frá sama tíma í fyrra eða um 35,1% að raunvirði (m.v. hækkun VNV án húsnæðis).

Virðisaukaskattur, sem er stærsti hluti veltuskattanna, nam um 28 ma.kr. á fyrstu þremur mánuðum ársins samanborið við rúmlega 34 ma.kr. á sama tíma árið 2008. Það er samdráttur upp á 18,4% að nafnvirði og 32,3% að raunvirði. Virðisaukaskattur í marsmánuði einum dróst saman um 37,4% frá sama mánuði í fyrra en hann kemur af innflutningi fyrir mánuðina janúar og febrúar. Frávikið frá fyrra ári skýrist þó að hluta til af áhrifum breyttra reglna um gjalddaga skattsins sem tóku gildi í mars og gilda til ársloka. Aðeins þriðjungur virðisaukaskatts fyrir tímabilið janúar-febrúar var nú á gjalddaga þann 15. mars og hinir tveir þriðjungarnir í apríl og maí. Það virðast ekki allir hafa nýtt sér þessa breytingu en um 1,4 ma.kr. koma til greiðslu í apríl og maí sem annars hefðu komið til greiðslu í mars. Tekjur af tollum og aðflutningsgjöldum námu rúmum milljarði króna og tekjur af tryggingagjöldum voru ríflega 9 ma.kr. sem er samdráttur um annars vegar 37,2% og hins vegar 8,5% á milli ára.

Greidd gjöld nema 123,2 ma.kr. og hækka um 32,1 ma.kr. frá fyrra ári, eða um 35,2%. Milli ára hækka útgjöld mest til almennrar opinberrar þjónustu um 15,8 ma.kr., þar sem vaxtagreiðslur ríkissjóðs skýra 14,3 ma.kr. Þá hækka útgjöld til almannatrygginga og velferðarmála um 9,4 ma.kr. sem skýrist að mestu með 5,3 ma.kr. hækkun útgjalda atvinnuleysistryggingasjóðs á milli ára og 1,9 ma.kr. vegna útgjalda lífeyristrygginga sem hækka um 18,7%.

Útgjöld til heilbrigðismála aukast um 3,3 milljarða

Útgjöld til heilbrigðismála aukast um 3,3 ma.kr. milli ára þar sem útgjöld til sjúkratrygginga skýra 1,9 ma.kr. og útgjöld til Landspítala aukast um rúmar 800 milljónir. Útgjöld til efnahags- og atvinnumála aukast um 2,7 ma.kr. og skýra framkvæmdir Vegagerðarinnar um 1,3 ma.kr. aukningu milli ára.

Útgjöld til menntamála aukast um 1,4 ma.kr. þar sem útgjöld til Lánasjóðs íslenskra námsmanna aukast um tæpar 500 m.kr. milli ára. Útgjöld til löggæslu, réttargæslu og öryggismála lækka um 1,2 ma.kr. milli ára. Breytingar í öðrum málaflokkum eru minni en þau sem áður hafa verið talin. Útgjöldin eru 3,2 ma.kr. innan áætlunar og skýrist það að mestu af því að framkvæmdir í samgöngumálum og annarri fjárfestingu fara hægar af stað en gert hafði verið ráð fyrir.

Ríkisbréf seld fyrir 44 milljarða

Lánsfjárjöfnuður ríkissjóðs er neikvæður um 1,4 ma.kr. í mars á móti jákvæðum lánsfjárjöfnuði 33,7 ma.kr. á sama tíma í fyrra. Hreinn lánsfjárjöfnuður var neikvæður um 64 milljónir króna og lækkar um 35,5 ma.kr. milli ára sem skýrist með lækkun á handbæru fé frá rekstri. Frá áramótum hefur ríkissjóður selt ríkisbréf fyrir um 44 ma.kr. og lækkað stofn ríkisvíxla um 3,6 ma.kr. Þá tók ríkissjóður lán frá Færeyjum í mars að fjárhæð 300 milljónir danskra króna, jafnvirði 6,4 milljarða íslenskra króna. Á móti námu afborganir 1,3 ma.kr. sem skiptist jafnt á milli spariskírteina og annarra lána ríkissjóðs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK