Greint hefur verið frá aðalatriðunum í endurskipulagningu Chrysler bílaframleiðandans í Bandaríkjunum. Sagt er frá þessu á fréttavef BBC.
Fyrirtækið mun fá átta milljarða dollara til viðbótar í opinbera aðstoð, í stað sex milljarða eins og það hefði fengið ef því hefði tekist að semja við lánardrottna sína með fullnægjandi hætti.
Stofnað verði nýtt fyrirtæki, eða ný kennitala. Fiat mun eignast 20% hlut í Chrysler, með möguleika á því að auka hlut sinn í 35%.
Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna mun fara með 8% hlut. VEBA, sjóður í eigu verkalýðsfélaga mun fara með 55% hlut og stjórnvöld í Ontario og Kanada fara samanlagt með 2% hlut.
Núverandi eigandi Chrysler, fjárfestingafélagið Cerberus mun gefa eftir 80,1% hlut sinn. Þýska fyrirtækið Daimler mun líka afskrifa eign sína, 19,9% hlut. Þá verður eigendum skuldabréfa útgefnum af Chrysler staðgreiddir tveir milljarðar bandaríkjadala fyrir að gefa eftir skuldir að andvirði 6,9 milljarða bandaríkjadala.